Hafna ályktunum Sigríðar

Konur fjölmenntu í miðborg Reykjavíkur í gær þar sem hátíðardagskrá …
Konur fjölmenntu í miðborg Reykjavíkur í gær þar sem hátíðardagskrá fór fram vegna kvennafrídagsins. mbl.is/Eggert

Aðstandendur kvennafrís segjast hafna alfarið þeirri skoðun Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra að ályktanir sem dregnar séu af útreikningum Hagstofu Íslands séu rangar. Telja aðstandendurnir að engin málefnaleg ástæða sé til að leiðrétta fyrir þáttum eins og vinnutíma, menntun, reynslu, mannaforráðum og fleiri breytum, í grunninn felist kerfisbundið ójafnrétti ekki bara í óútskýrða launamuninum heldur mun fleiri þáttum.

Sigríður birti í gær færslu á Facebook þar sem hún vísaði í skýrslu velferðarráðuneytisins um kynbundinn launamun. Sagði hún að þegar búið væri að leiðrétta fyrir mælanlegum þáttum sem skýrðu launamun væri munurinn ekki 26% á milli kynjanna, eins og forsvarsmenn kvennafrís héldu fram og sæist í tölum Hagstofu Íslands um meðalatvinnutekjur, heldur um 5%.

Í tilkynningu segir að kerfisbundið ójafnrétti felist í þáttum eins og vinnutíma, menntun, starfi, atvinnugrein, barneignum og hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum. „Þótt þessir þættir útskýri hluta af launamuninum þá réttlæta þeir hann ekki heldur vekja fleiri spurningar um hvers vegna má vera að hlutur kynjanna sé svo ójafn í þessum þáttum.“

Þá er vísað til þess í tilkynningunni að konur þurfi jafnan að vera lengur frá vinnu í kringum barneignir og veikindi barna. „Meðalatvinnutekjur kvenna eru 26% lægri en meðalatvinnutekjur karla. Ástæðurnar fyrir því eru meðal annars þær að þær taka lengra fæðingarorlof, þær þurfa frekar að vera frá vinnu vegna veikinda barna, þær þurfa að vera lengur frá vinnu til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, þær veljast sjaldnar í vel launaðar stjórnunarstöður og þær tilheyra svokölluðum kvennastéttum þar sem störfin eru ekki metin að verðleikum þegar kemur að launum og öðrum starfskjörum.“

Segir að lokum að forsvarsmenn kvennafrís telji ástæður þessa launamunar ekki skiljanlegar og ásættanlegar, ólíkt ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert