Mun ekki biðjast afsökunar

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ætlar ekki að biðja þá afsökunar sem vikið var af lista hæfnisnefndar um umsækjendur um stöður dómara við Landsrétt. Þetta kom fram í máli hennar í Kastljósi í kvöld.

Íslenska ríkið var í dag dæmt í Héraðsdómi Reykja­vík­ur til að greiða Jóni Hösk­ulds­syni héraðsdóm­ara fjór­ar millj­ón­ir í skaðabæt­ur og 1,1 millj­ón í miska­bæt­ur vegna ákvörðunar dóms­málaráðherra að líta fram hjá hon­um þegar skipað var í embætti dóm­ara við Lands­rétt. Þá var í öðru máli viður­kennd bóta­skylda rík­is­ins í sam­bæri­legu máli Ei­ríks Jóns­son­ar laga­pró­fess­ors sem einnig hafði verið meðal um­sækj­enda um starf dóm­ara við Lands­rétt.

Dómsmálaráðherra sagði að hún hefði alltaf orðið skaðabótaskyld, sama hvað hún hefði gert, enda hefði þingið ekki samþykkt lista hæfnisnefndarinnar. „Ég fellst nú ekki á það að þetta ágæta fólk hafi orðið fyrir einhverjum miska vegna þess að ég hef sagt það og held því fram ennþá að þetta fólk allt saman var jafn hæft og vel hæft til að gegna störfum landsréttardómara,“ sagði Sigríður, þegar hún útskýrði hvers vegna hún hygðist ekki biðjast afsökunar.

Þá sagði hún aðspurð að hún hefði ekki gert mistök við skipan dómara við Landsrétt. „Nei, á þeim tíma, þegar ég stóð frammi fyrir málinu, þá get ég ekki fallist á að mér hafi verið unnt að haga þessu með öðrum hætti.“

Nú, þegar dómur hefur fallið í málinu, segir Sigríður að hún muni haga meðferð sambærilegra mála með öðrum hætti og með ítarlegri rannsóknum, ef til þess kemur að hún þurfi að víkja frá tillögu hæfnisnefndar um dómaraembætti í framtíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert