Soðholur frá 10. öld fundust á Bessastöðum

Fornleifafræðingarnir Ármann Dan Árnason og Hermann Jakob Hjartarson við rannsóknarstörf.
Fornleifafræðingarnir Ármann Dan Árnason og Hermann Jakob Hjartarson við rannsóknarstörf. mbl.is/Árni Sæberg

Unnið er að því að ljúka vinnu við fornleifarannsókn sem staðið hefur yfir á Bessastöðum. Svæðinu verður svo lokað fyrir veturinn, að sögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings sem stjórnar rannsókninni. Hún sagði að framhald verkefnisins væri í höndum Minjastofnunar.

„Það er eftir að rannsaka þarna eitthvað meira. En það er komið haust og rysjótt veður. Það er erfitt að vinna við þetta þegar rignir annan hvern dag og svo er mjög vindasamt þarna. Ég býst við að við frestum framhaldinu fram á vor,“ sagði Ragnheiður. „Það verður settur jarðvegsdúkur þarna yfir og jarðvegur. Svo er hægt að taka það upp og byrja aftur þegar fer að vora.“

Grill forfeðranna

Á svæðinu sem nú er verið að ljúka vinnu á fundust tvær soðholur sem sennilega eru frá 10. öld. Segja má að soðholur hafi verið gamaldags grill. Soðholur eru ekki algengar hér en sama gerð af soðholum og fundust á Bessastöðum hefur einnig fundist á Hofsstöðum í Garðabæ og í selinu í Urriðakoti. Þær virðast því hafa verið algengar á þessu svæði. Sennilega hefur stærri soðholan á Bessastöðum verið utandyra. Hún er rúmlega einn metri á breidd. Í henni hefur því verið hægt að elda fyrir marga. Það gæti bent til þess að þarna hafi farið fram blót til forna.

Soðholur eru fóðraðar með steinum. Þær hafa verið hitaðar upp með eldi og síðan sett í þær t.d. kjöt og lokað yfir með torfi þannig að maturinn moðsauð á löngum tíma.

Ragnheiður segir að skiptar skoðanir séu um hvers konar eldstæði þetta séu. „Ég hef haldið því fram að soðholur af þessari gerð séu mjög fornar og að menn hafi hætt að gera þær á 10. öld,“ segir Ragnheiður í Morgunblaðinu í dag. „Það eru mjög gamlar minjar þarna á Langavelli þar sem bærinn Lambhús á Álftanesi stóð.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »