Íbúðir í Gufunesi á undir 20 milljónir

Svona er gert ráð fyrir að húsin í Gufunesinu líti …
Svona er gert ráð fyrir að húsin í Gufunesinu líti út. Mynd/Þorpið-vistfélag

Þorpið-vistfélag, eitt þeirra félaga sem mun taka þátt í átaki Reykjavíkurborgar um að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk á næstu árum, stefnir að því að ódýrustu íbúðirnar sem félagið selji muni kosta undir 20 milljónir króna, en samvinnufélagið hyggst byggja allt að 120 íbúðir á byggingarreit í Gufunesi.

Níu teymi, sem verða að öllum líkindum samstarfsaðilar borgarinnar í þessu verkefni, kynntu áætlanir sínar á fundi í ráðhúsi Reykjavíkur í morgun. Þorpið-vistfélag er sá aðili sem stefnir á að byggja flestar íbúðir innan ramma uppbyggingarátaksins, en um er að ræða nýtt óhagnaðardrifið byggingarsamvinnufélag sem hefur unnið að þróun verkefnisins í Gufunesi undanfarin tvö ár.

Gert er ráð fyrir því að félagsmenn leggi fram eigið fé til íbúða sinna sjálfir, samkvæmt lögum um byggingarsamvinnufélög og að slíkt fyrirkomulag færi arðsemi þeirrar fjárfestingar beint til íbúanna sjálfra, en ekki fjárfesta.

„Enginn sem fengið hefur íbúð má selja hana fyrstu fimm árin frá lóðarúthlutun, nema stjórn félagsins hafi áður hafnað forkaupsrétti, félagsins vegna, og söluverð íbúðar má á sama tímabili aldrei vera hærra en kostnaðarverð hennar. Þessu til viðbótar er ætlun Reykjavíkurborgar að setja skilyrði um bann við langtímaleigu,“ segir í tilkynningu félagsins.

Félagið segir að hagkvæmni náist með fjöldaframleiddum og einföldum en vönduðum innfluttum timbureiningum sem raðað verði saman í fjölbýlishús líkt og tíðkast hafi um árabil á Norðurlöndunum. Um verður að ræða hús með stúdíóíbúðum og 2-3 herbergja íbúðum.

Runólfur Ágústsson verkefnastjóri hjá félaginu segir í fréttatilkynningu að verið sé að endurvekja félagsform sem á síðustu öld byggði upp stóra hluta borgarinnar á félagslegum grunni.

„Með uppbyggingu á félagslegu eignarhúsnæði sköpum við nýjan valkost fyrir fólk sem vill eignast eigið þak yfir höfuðið án þess að ráðstafa nær öllum framtíðartekjum sínum til margra áratuga í húsnæði. Þessi nálgun er samfélagsleg þar sem við bjóðum fólki að taka þátt í uppbyggingu vistvæns samfélags sem byggir á deililausnum, samvinnu fólks og samstarfi,“ er haft eftir Runólfi.

Rafknúnir deilibílar og vatnastrætó í miðborgina

Íbúðirnar eiga að verða umhverfisvænar og vottaðar sem slíkar, en stefnt er að því að hverri íbúð fylgi 15 fermetra grænmetisgarður og einnig verður möguleiki til hænsnahalds á lóðinni. Gert er ráð fyrir því að þvottahús, kaffihús og grillaðstaða verði sameiginleg í fjölbýlishúsunum, auk þess sem rafknúnir deilibílar munu fylgja íbúðum, þannig að íbúar þurfa ekki hver og einn að eiga bíl.

Í tilkynningu félagsins segir einnig að „sérstakur vatnastrætó“ muni tengja hverfið beint við miðborg Reykjavíkur.

Þorpið-vistfélag gerir ráð fyrir því að framkvæmdir muni hefjast að lokinni gatnagerð næsta sumar. Fullfrágengnar íbúðir verði svo afhentar eigendum tæpu ári síðar, eða sumarið 2020.

mbl.is
Loka