Ljóst er að sæstrengur til raforkuflutninga á milli Íslands og Stóra-Bretlands (Ice Link) er kominn á verkefnalista Evrópusambandsins (ESB) með blessun og samþykki íslenskra stjórnvalda, að mati Friðriks Daníelssonar, ritstjóra heimasíðu Frjáls lands (frjalstland.is).
„Í athugasemd vegna ummæla formanns Sambands garðyrkjubænda sem birtist á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 1. nóvember stendur að engar millilandatengingar fari á verkefnalista ESB, sem er kallaður PCI eða Projects of Common Interest, nema með samþykki viðkomandi stjórnvalda. Nú er þetta verkefni komið á listann og þá hlýtur ráðuneytið að vera búið að samþykkja þetta,“ sagði Friðrik.
Tengill á skýrslu ACER (samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði ESB) um uppbyggingu og millitengingu orkukerfa ESB og EES er birtur á heimasíðu Frjáls lands. Skýrslan var gefin út 7. júlí 2017. PCI-listinn hvað varðar raforku er í 5. viðauka. Þar er verkefni 1.13 tenging milli Íslands og Stóra-Bretlands (nú þekkt sem „Ice Link“) að því er segir í töflunni. Að framgangi verkefnisins vinna Landsnet, Landsvirkjun og National Grid Interconnector Holdings Ltd. Staða verkefnisins er sögð vera „í athugun“. Þess er vænst að sæstrengurinn verði tekinn í notkun árið 2027, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.