Hafa selt yfir 500 hjól á fyrsta árinu

Lauf grit-hjólið er búið sérstökum demparagaffli sem Lauf hannaði og …
Lauf grit-hjólið er búið sérstökum demparagaffli sem Lauf hannaði og þróaði, en hann er búinn fjaðurgaffli í stað hefðbundinna teleskópískra demp­ara. Ljósmynd/Arnold Björnsson

Fyrir rúmlega ári hóf íslenski hjólaframleiðandinn Lauf að selja malarhjól (e. gravel bike) undir eigin merkjum, en áður hafði fyrirtækið einbeitt sér að hjólademparagöfflum sem vöktu talsverða athygli fyrir nýstárlega hönnun. Frumgerðin gengur undir nafninu True grit og er í hágæðaflokki á markaðinum (e. high end). Eftir mjög jákvæða dóma hjá mörgum hjólatímaritum er salan komin á fullt og hafa yfir 500 hjól selst fyrsta árið. Á næsta ári ætlar Lauf svo að bæta við öðru hjóli, sem verður í miðverðflokki og eru uppi vonir um að margfalda veltuna.

„Þetta hefur gengið fáránlega vel, við höfum bæði fengið góðar viðtökur og gagnrýni,“ segir Benedikt Skúlason, annar stofnenda og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann segir í raun frekar magnað hversu hjólið hafi fengið mikla athygli síðasta árið, en gagnrýni hjá stórum hjólatímaritum eins og Road bike action magazine, Bike rumor, Bike radar  og Advntr er öll á þann veg að um sé að ræða hjól í hæsta gæðaflokki. Segir hann ekki sjálfsagt að koma inn á markað eins og hjólamarkaðinn með jafnframúrstefnulega hugmynd og algjörlega ný tegund af dempara er og fá strax jákvæð viðbrögð.

GCN kynntu sér Lauf True grit-hjólið nýlega

Fyrir um viku birtist svo hjólið í hjólaþætti GCN á Youtube, en það er líklegast sá hjólaþáttur sem flestir hjólaáhugamenn víða um heim horfa á. Þegar þetta er skrifað hafa yfir 100 þúsund manns horft á myndskeiðið. Það er því ljóst að hróður íslenskra hjóla og hjólreiða fer víða þessa stundina, en mbl.is greindi frá miklum áhuga á hjólaferð sama þáttar um Fjallabak. Hafa í dag samanlagt um 350 þúsund manns horft á það ferðalag.

True grit er sem fyrr segir malarhjól og segir Benedikt að þeir hjá Laufi vilji að merkið verði að helsta merkinu í þessum flokki hjólreiða. Með það fyrir augum ætla þeir að kynna nýtt malarhjól á næsta ári sem verður aðeins hefðbundnara og ódýrara. True grit-hjólið kostar sem dæmi að meðaltali um 5.000 Bandaríkjadali, en þeir vilja reyna að fara með nýja hjólið niður í um 2.500 dali. Af þessum tölum má sjá að veltan er talin í nokkur hundruð milljónum nú þegar.

Segir Benedikt að með þessu útspili sé ætlunin að komast inn í mun breiðari kaupendahóp og undanfarið hafi þeir unnið hörðum höndum að því að semja við yfir 50 söluaðila í Bandaríkjunum sem ætli sér að selja hjól frá þeim.

Hjólið sem Lauf framleiðir ber nafnið True Grit og er …
Hjólið sem Lauf framleiðir ber nafnið True Grit og er svokallað malarhjól (e. gravel bike). Eins og sjá má á myndinni er framgaffallinn nokkuð öðruvísi en gafflar á hefðbundnum hjólum. Mynd/Arnold Björnsson

Þegar mbl.is ræddi við Benedikt í fyrra sagðist hann vonast til þess að þeir myndu ná að selja um 1.000 hjól á þessu ári. Ekki er víst að það náist að fullu, en Benedikt segir að aukinn kraftur hafi verið settur í að bæta við söluaðilum til að byggja undir komu nýja hjólsins. „Hugmyndin er að vera með ódýrara módel við hliðina á flaggskipinu,“ segir hann og bætir við að það geti reynst erfitt að selja fólki jafnframúrstefnulega vöru sem kosti jafnvel langleiðina í eina milljón. Hins vegar sé ljóst að með meira umtali sé áhugi fólks á hjólinu og demparanum að aukast talsvert. Með því að bæta við verðflokki sem höfði líka til hins almenna hjólakaupanda séu þeir að margfalda markhópinn.

Bandaríkin eru og hafa verið stóri markaður malarhjóla, en þessi grein hjólreiða er nokkuð ný. Benedikt segir að Bandaríkin séu að jafnaði nokkrum árum á undan öðrum löndum heimsins þegar kemur að nýjungum í hjólageiranum og í þessu tilfelli sé það ekkert öðruvísi. Fyrirtækið hafi því einbeitt sér að þeim markaði.

Hann segir að gangi núverandi sölumarkmið upp fyrir þetta ár muni þeir tvöfalda veltu fyrirtækisins milli ára og að stefnan sé sett á þreföldun á næsta ári.

mbl.is