Dómur yfir lögreglumanni staðfestur

Jens Gunnarsson (til vinstri) ásamt lögmanninum Vilhjálmi Vilhjálmssyni í héraðsdómi.
Jens Gunnarsson (til vinstri) ásamt lögmanninum Vilhjálmi Vilhjálmssyni í héraðsdómi. mbl.is/Árni Sæberg

Landsréttur hefur dæmt lögreglumanninn Jens Gunnarsson í 15 mánaða fangelsi og Pétur Axel Pétursson í 9 mánaða fangelsi. Þar með var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í apríl í fyrra. Ákært var í málinu í nóvember 2016.

Fram kemur í reifun dómsins að Jens hafi veitt Pétri Axel upplýsingar sem þagnarskylda ríkti um. Einnig var Jens sakfelldur fyrir spillingu með því að hafa í tengslum við framkvæmda starfa sinna, heimtað í SMS-skilaboðum peninga af Pétri. Jens var einnig sakfelldur fyrir brot í opinberu starfi sem lögreglumaður þar sem hann hafði ekki gætt lögmæltra aðferða við meðferð máls eða úrlausn þar sem hann var í upplýsingasambandi við Pétur án vitundar yfirmanna sinna og í andstöðu við ákvæði reglna innanríkisráðherra um sérstakar aðgerðir við rannsókn sakamála og reglna ríkissaksóknara um samskipti lögreglu við upplýsingagjafa við rannsókn máls.

Pétur var einnig sakfelldur fyrir fíkniefnabrot og vopnalagabrot. Jens var sýknaður af ákæru um spillingu fyrir að hafa tekið á móti tveimur símum frá Pétri í því skyni að þeir gætu át í upplýsingasamskiptum. Jens var einnig sýknaður fyrir brot í opinberu starfi sem lögreglumaður með því að hafa varðveitt tiltekið magn af amfetamíni, vefaukandi sterum, testósterón prípíónati og tvær loftskammbyssur í skrifborðsskúffu á vinnustað sínum.

Auk fangelsisdómsins yfir mönnunum tveimur voru gerð upptæk efni og vopn sem fundust hjá Pétri.

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Mjög alvarleg brot á starfsskyldum

Fram kemur í dómi Landsréttar að Jens sé sakfelldur fyrir mjög alvarleg brot á starfsskyldum sínum sem lögreglumaður. Þar vegi þyngst brot hans sem beindust gegn mjög mikilvægum hagsmunum, eða trúnaði um starfsemi lögreglu, auk þess sem hann setti menn í hættu með upplýsingagjöf sinni.

„Að þessu athuguðu og þrátt fyrir að ákærðu hafi verið sýknaðir af hluta sakargifta samkvæmt ákæru verður héraðsdómur staðfestur um refsingu þeirra. Ekki þykja efni til að skilorðsbinda hann,“ segir í dóminum.

Jens var dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna, upp á rúmlega tvær milljónir króna og Pétur var dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, eða tæpa eina milljón króna.

mbl.is