Óveðrið skellur á um hádegi

Mynd úr safni en farið er að hvessa á Suðausturlandi. …
Mynd úr safni en farið er að hvessa á Suðausturlandi. Í Öræfum við Svínafell má gera má ráð fyrir byljóttum vindi og hviðum allt að 35 m/s fyrir hádegi. Mynd: Orri Örvarsson/Landsbjörg

Gul viðvörun er í gildi fyrir allt landið og tekur hún gildi á hluta landsins um hádegi. Útlit er fyrir að samgöngur muni raskast í einhverjum landshlutum og á höfuðborgarsvæðinu verður hvassast á Kjalarnesi og efri byggðum þar sem vindhviður geta náð allt að 35 metrum á sekúndu.

Í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að spáð er norðaustanhvassviðri eða -stormi með snjókomu eða hríð norðan- og austanlands frá því síðdegis til föstudags og því eru ferðamenn hvattir til að fylgjast vel með veðurspám og -viðvörunum.

„Í dag heldur áfram að hvessa af norðaustri og verður hvassviðri eða stormur á öllu landinu síðdegis. Um landið norðanvert má búast við að úrkoman sem með vindinum fylgir verði í formi snjókomu en slyddu eða jafnvel rigningar á Austfjörðum.

Á Suðausturlandi verður rigning á köflum, úrkomumeira austan Öræfa á meðan þurrt verður að mestu sunnan- og vestanlands. Hiti um og undir frostmarki fyrir norðan en 0 til 7 stiga hiti syðra, mildast við suðausturströndina. Svipað veður á morgun og gera spár ekki ráð fyrir að dragi úr vindi og úrkomu fyrr en seint á morgun og föstudag. Þokkalegt veður víðast hvar um helgina en él í flestum landshlutum og frost.

Fremur líklegt er að færð muni spillast fram á föstudag, einkum á fjallvegum fyrir norðan og austan og ætti fólk sem hyggur á ferðir milli landshluta að fylgjast vel með fréttum að veðri og færð,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð norðan 13-23 m/s hvassast á Kjalarnesi og í efri byggðum þar sem vindhviður geta ná 35 m/s. Viðvörun er í gildi frá því klukkan 17 í dag til klukkan 15 á morgun.

Á Suðurlandi er spáð norðan 18-23 m/ undir Eyjafjöllum austur í Mýrdal með vindhviðum allt að 45 m/s. Varasamt ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi. Viðvörunin tekur gildi klukkan 20 í kvöld og gildir til hádegis á morgun. 

Á Faxaflóasvæðinu tekur viðvörunin gildi klukkan 17 í dag og gildir til miðnættis annað kvöld. Þar gengur í norðaustan 15-23 m/s, hvassast á Snæfellsnesi og við Hafnarfjall þar sem vindhviður geta náð 45 m/s. Varasamt ökutækjum, sem eru viðkvæm fyrir vindi.

Á Breiðafjarðarsvæðinu er spáð norðaustan 15-23 m/s með vindhviðum að 35 m/s norðan til. Varasamt ferðaveður frá klukkan 15 í dag til miðnættis annað kvöld.

Óveðrið skellur fyrst á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra og Strandir en þar tekur viðvörunin gildi á hádegi og er í gildi til miðnættis annað kvöld. Á Vestfjörðum gengur í norðaustan 15-23 m/s með snjókomu og skafrenningi. Færð mun spillast smám saman og skyggni fer minnkandi þegar líður á daginn. Líkur á samgöngutruflunum.

Á Ströndum og Norðurlandi vestra gengur í norðaustan 13-23 m/s með snjókomu og skafrenningi, hvassast og úrkomumest á Ströndum. Færð mun spillast smám saman og skyggni fer minnkandi þegar líður á daginn. Líkur á samgöngutruflunum.

Á Norðurlandi eystra er spáð vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s undir kvöld, með hríðarveðri á fjallvegum og með köflum lítið skyggni. Samgöngutruflanir líklegar. Þar tekur gul viðvörun gildi klukkan 15 og gildir hún til miðnættis annað kvöld.

Á Austurlandi að Glettingi gildir viðvörun frá klukkan 15 í dag til miðnættis annað kvöld. Þar er spáð vaxandi norðaustanátt, 13-20 m/s undir kvöld, með hríðarveðri á fjallvegum og með köflum lítið skyggni. Samgöngutruflanir líklegar.

Á Austfjörðum skellur óveðrið á strax á hádegi í dag og er viðvörun í gildi til klukkan 3 aðfaranótt föstudags. Þar er spáð norðaustan 13-18 m/s og talsverðri snjókomu til fjalla. Samgöngutruflanir líklegar.

Á Suðausturlandi skellur óveðrið einnig á um hádegi og gildir viðvörunin þar einnig til klukkan 3 aðfaranótt föstudags. Þar gengur í norðaustan 15-20 m/s, en 18-25 m/s um kvöldið með vindhviður að 40-50 m/s í Öræfum. Einnig mjög hviðótt í Mýrdal. Vegfarendur fari varlega, einkum ef ökutæki eru viðkvæm fyrir vindum.

Á miðhálendinu er spáð aftakaveðri en gul viðvörun er þar í gildi frá klukkan 15 í dag til miðnættis annað kvöld. Norðan 23-28 m/s og blindhríð, einkum sunnan jökla. Vindhviður geta staðbundið farið í 50 til 60 m/s.

Veðurspáin næstu daga

Vaxandi norðaustanátt og él N- og A-til, 15-23 m/s síðdegis og hvassari í Öræfum um kvöldið. Rigning með köflum SA-til og slydda á Austfjörðum, annars víða snjókoma eða él og skafrenningur, en úrkomulaust að kalla SV-til. Hiti 0 til 5 stig fyrir sunnan, en frost 0 til 5 stig norðan heiða. Svipað veður á morgun.

Á fimmtudag:

Norðaustan 15-25 m/s, hvassast SA-lands. Snjókoma á N-verðu landinu, slydda austast, en annars úrkomulítið. Hiti 0 til 4 stig SA-lands og með A-ströndinni, en annars 0 til 5 stiga frost. 

Á föstudag:
Norðan 10-18 m/s og snjókoma, síðar él á N-verðu landinu, en lengst af úrkomulaust syðra, hvassast á annesjum A-til. Hægari um kvöldið. Frost víða 1 til 6 stig. 

Á laugardag:
Norðlæg átt, víða 5-13. Dálítil él N- og A-til, en bjart annars staðar. Kólnar í veðri. 

Á sunnudag:
Breytileg átt 3-8 m/s, él á víð og dreif og kalt í veðri. 

Á mánudag:
Suðlæg átt og él S- og V-til og vægt frost, en annars víða þurrt og kalt. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir breytilega átt með éljum á víð og dreif. Frost um mestallt land, mest inn til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert