„Ég er ekki bara fötluð. Ég er kona“

Freyja Haraldsdóttir var varaþingmaður Bjartrar framtíðar.
Freyja Haraldsdóttir var varaþingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Aðför að fatlaða líkama mínum sem dýrslegum er ekki bara það „að gera grín að fötluðum“. Það er birtingarmynd kvenfyrirlitningar og fötlunarfyrirlitningar.“

Þetta er meðal þess sem Freyja Haraldsdóttir, fyrrverandi þingmaður og baráttukona fyrir réttindum fatlaðra, skrifar á Facebook-síðu sína. Þingmennirnir sem saman voru komnir á Klaustur bar í síðustu viku hæddust meðal annars að Freyju. Einn þeirra hermdi m.a. eftir hljóði í sel í níðtalinu um Freyju.

„Um er að ræða fyrirlitningu sem á sér djúpar sögulegar rætur og endurspeglar ævagömul viðhorf til fatlaðs fólks sem dýra - óæðri manneskjum,“ skrifar Freyja. „Það í samhengi við niðrandi umræðu um útlit og kynþokka kvenna er kvenfjandsamlegt. Ég er ekki bara fötluð. Ég er kona. Ég get ekki tekið mig í sundur og verið stundum fötluð og stundum kona. Ég er alltaf (stolt) fötluð kona.“

Freyja segir að sín fyrstu viðbrögð við hatursorðræðu þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins í gærmorgun hafi verið að verja hvorki krafti né orðum í hana og halda áfram með vinnudaginn sinn. „En ég hélt auðvitað ekkert áfram með daginn minn að neinu ráði - þetta hefur tekið sinn toll líkt og allt ofbeldi gerir. Eftir að hafa hugsað mikið um þetta, rætt við kærleiksríkt samstarfsfólk, tekið við slatta af ást í gegnum samfélagsmiðla, grátið töluvert, verið kaffærð í faðmlögum frá vinum og fjölskyldu og fylgst með umræðunni eins og hjartað mitt og taugakerfi þolir er eitt og annað sem ég ætla að segja.

Freyja skrifar að þó að hatrið beinist að persónum er alvara málsins sú að um kerfisbundið hatur er að ræða. „Það beinist harðast að konum. Hinsegin fólki. Fötluðu fólki. Karlmönnum sem einhvern veginn passa ekki inn í ríkjandi hugmyndir um (skaðlega) karlmennsku. Það er hvorki tilviljun né einsdæmi að akkúrat þessir hópar séu viðfang orðaníðs fólks með mikil forréttindi. Það er alltumlykjandi - alltaf.

Gerendur í þessu tilviki eru valdhafar. Alveg óháð því hvar gerendur eru í valdastiganum er ofbeldi af þeirra hálfu alvarlegt. Það er hinsvegar sérstaklega hættulegt þegar fólk í valdastöðum viðhefur hatursorðræðu. Í fyrsta lagi vegna þess að það setur fordæmi og hefur vald til þess að normalisera orðræðu og ofbeldismenningu. Ef Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, má tala svona, þá hljóta allir að mega það. Í öðru lagi vegna þess að hatursorðræða afhjúpar viðhorf valdhafa sem við höfum kosið og treyst til þess að reka samfélagið okkar og taka mikilvægar ákvarðanir um hagi okkar. Ef þingmenn sjá fatlað fólk sem dýr en ekki manneskjur er ekki furða að það taki ákvarðanir um líf fatlaðs fólks byggt á einhverju allt öðru en mannréttindaskuldbindingum. Í þriðja lagi vegna þess að rannsóknir og reynslan sýnir okkur að hatursorðræða valdhafa hefur bein áhrif á tíðni hatursglæpa.“

Freyja segir að eina leiðin til að biðjast afsökunar af trúverðugleika og auðmýkt sé að gangast við gjörðum sínum og taka ábyrgð með því að segja af sér.

Færsla Freyju í heild hér að neðan:

mbl.is

Bloggað um fréttina