„Mér finnst það svo sorglegt“

Sumir voru reiðir og aðrir voru sorgmæddir á Austurvelli í …
Sumir voru reiðir og aðrir voru sorgmæddir á Austurvelli í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum hér að mótmæla því að það voru karlmenn úti í bæ sem voru að tala illa um allar konur og líka fatlaðar konur. Það þarf að breyta þessum viðhorfum algjörlega núna á stundinni,“ sagði Steinunn Ása Þorvaldsdóttir í samtali við mbl.is á Austurvelli fyrr í dag.

Steinunn Ása var ein af fjölmörgum sem mættu fyrir framan Alþingishúsið fyrr í dag til að krefjast afsagnar Klaustursþingmannanna svokölluðu í kjölfar fréttaflutnings síðustu daga þar sem greint var frá niðrandi orðum sem þingmenn létu m.a. falla um konur, fatlaða og samkynhneigða.

Að mati Steinunnar bera allir sex þingmenn sem voru á staddir á Klaustur og tóku þátt í umræðunum jafnmikla ábyrgð þó að þeir hafi talað á misjöfnum nótum. Henni fannst þó alvarlegast hvernig umræðan var um Freyju Haraldsdóttur.

„Já það er [alvarlegast] varðandi hvernig talað er um fatlaðar konur og hvernig fólk hugsar um fatlað fólk. Mér finnst það svo sorglegt. Því er verr og miður,“ sagði Steinunn Ása einnig.

„Algjörlega“ svaraði Steinunn Ása Þorvaldsdóttir um það hvort þingmenn ættu …
„Algjörlega“ svaraði Steinunn Ása Þorvaldsdóttir um það hvort þingmenn ættu að segja af sér vegna Klausturmálsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Opinberar spillingu og valdníðslu

„Ég er hér til að mótmæla hatursfullri orðræðu gegn jaðarhópum: konum, fötluðum og samkynhneigðum. Ég get ekki liðið svona umræðu og allra síst frá þeim sem telja sig stjórna landinu,“ sagði fjölmiðlamaðurinn og þingmaðurinn fyrrverandi Sigmundur Ernir Rúnarsson í samtali við mbl.is.

„Við erum að verða vitni að svo ógeðslegri umræðu að það tekur engu tali. Ég sem karlmaður tek þetta náttúrulega til mín og get ekki liðið að kynbræður mínir hagi sér með þessum hætti,“ sagði hann einnig og bætti því við að hann hefði aldrei orðið vitni að annarri slíkri umræðu á ferli sínum sem þingmaður þótt að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefði sagt slíka umræðu algengari en margir vilja viðurkenna.

„Nafni minn hefur bara verið óheppinn með félagsskap. Ég hef verið á mörgum karlakvöldum og alls konar þorrablótum þar sem menn hafa verið í hópi kynbræðra sinna og þeir hafa ekki leyft sér að tala í námunda við þetta jafnvel þó þeir séu einir saman í hóp með körlum og dauðadrukknir í þokkabót.“

Þá sagði hann Klausturmálið vera öðruvísi en önnur stór og umdeild mál sem hafa komið upp á undanförnum árum því það „opinberar valdníðslu, opinbera spillingu og vissa tegund af popúlisma.“

Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur upplifað ýmislegt en sagðist aldrei hafa …
Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur upplifað ýmislegt en sagðist aldrei hafa upplifað eins umræðu eins og þá sem átti sér stað á barnum Klaustur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hrokafullur Sigmundur Davíð

„Við erum í fyrsta lagi að mótmæla því að það eru ákveðnir einstaklingar, eins og Sigmundur Davíð, sem hafa ekki séð sóma sinn í að biðjast afsökunar og raunveruleg ábyrgð hefur ekki verið öxluð,“ sagði Elísabet Brynjarsdóttir í samtali við mbl.is.

„Ég tek undir það,“ sagði Ingiríður Halldórsdóttir og bætti því við að fólk sem ætti að vera stunda hagsmunagæslu fyrir Íslendinga ætti ekki að láta úr sér slíka fordóma og fávisku líkt og raun bar vitni.

„Þetta er ekkert nema hroki, og sérstaklega hjá Sigmundi Davíð, að reyna spinna sig út úr þessu með samsæriskenningum og vitleysu og sjá ekki sóma sinn að vera löngu búinn að segja af sér,“ bætti Ingiríður við.

Ingiríður Halldórsdóttir og Elísabet Brynjarsdóttir.
Ingiríður Halldórsdóttir og Elísabet Brynjarsdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Elísabet og Ingiríður töldu báðar að allir sex þingmenn ættu að segja af sér vegna málsins en einnig að mikilvægt væri að allir alþingismenn myndu læra af þessu máli og standa sig betur í framtíðinni en þeir sex sem sátu á Klaustri.

Öll ummælin sem birtust á upptökunum voru jafnalvarleg að þeirra mati og þeim þótti ekkert sérstaklega verra en annað. „Þetta voru viðbjóðsleg ummæli í garð fatlaðra, kvenna og hinsegin fólks,“ sagði Elísabet.

„Hatursorðræða er alltaf jafnalvarleg sama hver beitir henni eða hvernig það kemur út,“ bætti Ingiríður við.

Frá Austurvelli fyrr í dag.
Frá Austurvelli fyrr í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is