Fékk öruggt rými til að verða hún sjálf

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Mér leið ekki vel í skóla og var ekki sterk félagslega, segir Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir framhaldsskólanemandi. Hún lýsti á fundi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á föstudag hvernig starf unglingasmiðju umbylti lífi hennar. Þar hafi hún fengið öruggt rými til að verða hún sjálf að nýju.

Þórhildur er 19 ára gömul og á síðasta ári í framhaldsskóla. Hún er einn höfunda bókarinnar Á morgun er aldrei nýr dagur, þar sem 24 norræn ungmenni skrifa um reynslu sína af því að alast upp við fátækt á Norðurlöndunum. 

Hún var virk í starfi unglingasmiðjunnar Stígur tvö síðustu árin í grunnskóla og Þórhildur segir að á þessum tíma hafi henni ekki liðið vel. „Mér leið ekki vel í skóla. Ég átti frekar erfitt félagslega út af mörgu sem hafði gerst. Ég var á frekar viðkvæmum stað á þessum tíma,“ segir Þórhildur. 

Hún segir að sig hafi í raun ekkert langað til þess að fara í unglingasmiðjuna en hún hafi vitað að það myndi gera henni gott. 

Allan tímann sem ég var þar fékk ég stuðning og ég held að það hafi nýst mér mjög vel á þessum tímapunkti þegar mér leið ekki nógu vel og var frekar viðkvæm. Ég fékk öruggt rými til þess að njóta mín og geta tekið þetta skref að tala við fólk og verða í rauninni ég sjálf aftur,“ segir Þórhildur en á þessum tíma hafði svo margt gerst í hennar lífi að hún var mjög viðkvæm og hafði útlokað sig frá öðrum.

Hún segir að heildarþema bókarinnar sé fátækt og skömm og í bókinni lýsir hún því hvernig hún hafi eytt peningum í föt og snyrtivörur. Vörur sem hún hafði í rauninni ekki efni á.

„Skömmin sat í litlu stúlkunni. Í fögru, gulli búnu hásæti þar sem hún naut sín. Þar ríkti hún yfir öllu. Hún réð með harðri hendi yfir húsnæði litlu stelpunnar, fjölskyldu hennar og öðrum svokölluðum leyndarmálum sem hún reyndi að grafa, ó svo djúpt, bak við ímynd sína. Hún eyddi öllum peningum sem hún kom höndum yfir í föt svo aðra myndi ekki gruna fátæklegan bakgrunn hennar.“

Á fundinum lýsti Þórhildur því hversu gott það hafi verið að skrifa um þá hluti sem urðu til þess að hún útilokaði sig frá öðrum.

Að sögn Þórhildar fékk hún mikinn stuðning frá bæði starfsfólki og öðrum krökkum sem þar voru. Að stíga út fyrir þægindarammann. Meðal annars til að taka þátt í að skrifa sína sögu í bókina og að fara í skiptinám. Það hefði hún aldrei gert án þessa stuðnings sem hún fékk í unglingasmiðjunni. 

Reykjavíkurborg rekur tvær unglingasmiðjur en þær eru félagslegt úrræði fyrir unglinga á aldrinum 13-18 ára sem eru félagslega einangraðir, hafa orðið fyrir einelti,eru óframfærnir/óvirkir, sýna þunglyndis- og kvíðaeinkenni og/eða hafa lítið sjálfstraust, eru með slaka félagsfærni og/eða búa við erfið uppeldisskilyrði.

Meginmarkmið starfsins eru að efla sjálfstraust, leita leiða til uppbyggilegra lausna, styrkja hópkennd og jákvæð samskipti, kenna að bera virðingu fyrir öðrum og sýna öðrum umburðarlyndi og auka hæfni í félagslegum samskiptum.

Hér er hægt að lesa nánar um unglingasmiðjur

Skortur á smiðjum fyrir krakka

Á fundinum var fjallað um börn með tilfinningalegan og/eða félagslegan vanda og fjölskyldur þeirra. 

Á meðal þeirra sem þar töluðu er Ingibjörg Karlsdóttir, félagsráðgjafi á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, en hún er að vinna með nýja nálgun varðandi félagsfærniþjálfun ungmenna, PEERS. 

PEERS er námskeið í félagsfærni fyrir börn, unglinga og ungmenni með einhverfu, ADHD, kvíða, þunglyndi og aðra félagslega erfiðleika. Námskeiðið telst vera gagnreynt fyrir unglinga og ungmenni með einhverfu. PEERS er skammstöfun fyrir Program for the Education and Enrichment of Relational Skills.

Að sögn Ingibjargar virka unglingasmiðjur og PEERS mjög vel saman því sum börn þurfi meiri stuðnings en þau geta fengið í smiðjunum. Þar komi PEERS sterkt inn ekki síst vegna samvinnu við foreldra. Hún telur að bæta megi þjónustuna fyrir yngri börn, það er börn á aldrinum 9-12 ára á sama tíma og þeim börnum fari fjölgandi sem eru félagslega einangruð, það er börn sem eru með ADHD, börn á einhverfu-rófi, glíma við kvíða eða depurð. 

Hér er hægt að lesa nánar um PEERS

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hefur alltaf verið krefjandi barn

Vilhjálmur Eiríksson er fertugur tveggja barna faðir. Hann og kona hans fóru nýlega í gegnum foreldrafærninámskeið (PMT) sem hann segir að hafa breytt gríðarlega miklu á þeirra heimili.

Sonur þeirra sem er fjögurra ára fór ungur að sýna merki um að vera krefjandi barn og strax hjá dagmömmu kom það í ljós enda hafi dagmamman viljað segja honum upp á sínum tíma. 

„Hann hefur alltaf verið krefjandi barn og við áttuðum okkar kannski ekki strax á því enda okkar fyrsta barn og höfðum því engan samanburð,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir son sinn vera ótrúlega flottan dreng, fróðleiksfúsan og kláran en hann eigi erfitt með ákveðna hluti. Það þurfi að hafa mikið fyrir honum og spennustigið mjög hátt í kringum hann. Félagslega eigi hann ekki auðvelt því hann á erfitt með samskipti við önnur börn. 

Síðasta sumar fékk hann greiningu hjá sálfræðingi á þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar og það eru vísbendingar um ofvirkni, athyglisbrest og fleira. Í kjölfarið fékk hann stuðning á leikskólanum sem hefur hjálpað honum gríðarlega mikið að sögn Vilhjálms. Stuðningurinn frá leikskólanum og starfsfólkinu þar sé alveg ótrúlega flottur, segir Vilhjálmur en sonur hans er á leikskólanum Maríuborg. „Starfsfólkið þar er í einu orði sagt til fyrirmyndar,“ segir hann.

Þar fær hann daglegan stuðning og gengur vel að vinna með honum og veikleikum hans. Að sögn Vilhjálms voru þau aftur á móti úrræðalaus á heimilinu en þau eiga einnig tveggja ára gamla dóttur. „Heimilið er oft í hershöndum og við þurftum að fá verkfæri. Að fá aðstoð,“ segir hann. 

Í haust komust þau að á PMT-námskeiði en þau þurftu að bíða í átján mánuði á biðlista þangað til þau komust loksins að. 

Vilhjálmur segir að á námskeiðinu hafi þau fengið verkfæri og lært aðferðir til að vinna með drengnum heima. Þau hafi reynt ýmislegt en þegar staðan er erfið á heimilinu sé erfitt fyrir foreldra að vita hvort þeir eru að gera rétt. Á námskeiðinu fengu þau hins vegar nákvæmlega réttu verkfærin. Til að mynda að beita umbunum. „Erum komin með tæki og tól sem eru að virka. Litlir hlutir sem eru samt svo öflugir,“ segir Vilhjálmur og segist hvetja alla sem þurfa á stuðningi að halda að sækja slík námskeið.

Upplýsingar um PMT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert