„Kynhneigð er ekki lífsstíll“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/​Hari

Ég varð dapur að heyra hvað haft er eftir Francis páfa í bók sem væntanleg er á næstu dögum. Hann er samkvæmt fréttum sagður hafa áhyggjur af auknum fjölda samkynhneigðra karla innan prestastéttarinnar.

Þetta kemur fram í Facebook-færslu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra. Frans Páfi lét hafa eftir sér um helgina að samkynhneigð innan kaþólsku kirkjunnar væri alvarlegt mál sem vert væri að hafa áhyggjur af. Hann sagði samkynhneigð „í tísku“ og biðlaði til presta að minnast skírlífsheita sinna.

Kæri Francis. Kynhneigð er ekki lífsstíll. Kynhneigð er ekki val og ekki kynvitund heldur. Hún bara er. Líka kynhneigð hinsegin fólks. Kynhneigð okkar er ekki tískufyrirbrigði sem við skiptum út með nýrri vorlínu. Við bara erum svona,“ skrifar Guðmundur og beinir orðum sínum að páfa.

Hann segist hafa íhugað að verða munkur og dvaldi 21 árs gamall í kaþólsku klaustri. Ráðherra veit að það að ganga í klaustur er nokkurra ára strangt lærdómsferli og miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem ákveða að gerast kirkjunnar þjónar.

En það kemur kynhneigð ekkert við. Bara ekki neitt. Ég verð dapur að heyra að þú sem ég hef annars haft ágætis mætur á sjáir ekkert rými fyrir hinsegin fólk á meðal presta, munka og nunna,“ skrifar Guðmundur.

Hann segir páfa gera mikil mistök með því að útiloka framlag hinsegin fólks. „Eftir því sem þú hefur fjölbreyttari hóp í vinnu hjá þér, eru meiri líkur á að kirkjan þín geti betur rækt hlutverk sitt – að vera boðberi kærleika, friðar og ástar. Það verður meiri skilningur innan hennar,“ skrifar Guðmundur og bætir því við að hann vonist til þess að páfi sjái villu síns vegar.

 

mbl.is