Nemendur sýni símabanni skilning

Frá og með 1. janúar verður óheimilt að nota farsíma …
Frá og með 1. janúar verður óheimilt að nota farsíma á skólatíma nemenda í Öldutúnsskóla. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson

„Okkur finnst áreitið á börnin og aðgengið að þeim vera orðið töluvert þegar þau eru með eigin síma. Sem dæmi hefur verið hringt í börn og þeim send skilaboð á meðan þau eru í kennslustund,“ segir Valdimar Víðisson, skólastjóri í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði. „Þau eru að kíkja á símana sína og jafnvel að fara inn á salerni til þess að svara.“

Frá og með 1. janúar 2019 verður óheimilt að nota farsíma á skólatíma nemenda í Öldutúnsskóla. Að sögn Valdimars hafa nemendur aðgang að borðtölvum og spjaldtölvum í skólanum, og eru farsímar því óþarfir til kennslu.

Samkvæmt skólareglum eiga nemendur ekki að koma með óþarfa hluti í skólann, en hingað til hefur verið litið fram hjá reglunni við kennslu unglinga, sem stundum hafa fengið að nýta símana við námið.

Bara jákvæð viðbrögð frá foreldrum

„Þetta er ekki eitthvað sem er ákveðið á síðustu dögum, þetta er búið að vera í bígerð hjá okkur lengi. Þetta er reglulega rætt, og hefur verið gert síðastliðin tvö til þrjú ár. Við byrjuðum að ræða þetta af alvöru í vor og það eru allir í starfsmannahópnum algerlega samstíga um að fara í þetta verkefni,“ segir Valdimar.

Hann segir málið hafa verið rætt við stjórn nemendafélags skólans, sem hafi sýnt því skilning þó krakkarnir séu almennt ekki alveg sáttir við þetta.

„Við höfum bara fengið jákvæð viðbrögð frá foreldrum og við ætlum að fylgja þessu eftir í samvinnu við þá,“ segir Valdimar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert