Óþarfa áhyggjur af tómum jöfnunarsjóði

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar.
Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, segir það ekki áhyggjuefni að jöfnunarsjóður alþjónustu, sem stjórn Íslandspósts hyggst nýta til að endurgreiða fyrirhugað lán ríkissjóðs til fyrirtækisins upp á einn og hálfan milljarð króna, sé tómur. „Það eru á því skýringar, það hefur ekki reynt á þetta áður,“ segir Willum í samtali við mbl.is.  

Fjár­laga­nefnd Alþing­is af­greiddi breyt­ing­ar­til­lögu meiri­hluta nefnd­ar­inn­ar á fundi sín­um á mánudag þess efn­is að rík­is­sjóður fái heim­ild til að veita Ísland­s­pósti einn og hálf­an millj­arð til að mæta fjár­hags­vanda fyr­ir­tæk­is­ins.

Ekk­ert fjár­magn er til staðar í jöfn­un­ar­sjóði alþjón­ustu en ekki er um að ræða sjóð sem safnað er í að staðaldri. Komi hins veg­ar fram ósk um fram­lag úr sjóðnum er sett í gang ákveðið ferli sem þarf meðal ann­ars að fara fyr­ir Alþingi enda kall­ar það á breyt­ing­ar á skatta­lög­um svo inn­heimta megi sér­stakt gjald til þess að fjár­magna fram­lagið úr sjóðnum.

Jöfnunarsjóður ekki eina leiðin til að endurgreiða lánið

Willum segir að framlög úr jöfnunarsjóði verði ekki eina leiðin til að endurgreiða lánið. „Það er fullt af eignum í þessu fyrirtæki, þetta er verðmætt fyrirtæki sem er að fara í endurskipulagningu. Það þarf að skoða reksturinn, hvaða þjónustueiningar eigi að vera áfram og hverjar má jafnvel losa. Við skulum sjá hvað kemur út úr því.“

Stjórn Íslandspósts hefur skipað aðgerðahóp vegna lausa­fjár­erfiðleika fyr­ir­tæk­is­ins. „Hann er að fara yfir þessa hluti og skilyrðin sem eru bundin þessari lánaheimild ef reynir á hana á næsta ári, þá eru bæði umhverfis- og samgöngunefnd og fjárlaganefnd upplýst um stöðu mála,“ segir Willum.

Hann er bjartsýnn á að hópurinn finni leiðir til þess að efla lausafé og sjóðsstreymi og styrkja reksturinn. „Menn eru í aðgerðum til þess að það reyni ekki á þessa lánshæfni.“

mbl.is