Lausnin er hjá gerendunum

mbl.is/Hari

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra telur að lausnin sé hjá gerendum og þeir axli ábyrgð á gjörðum sínum. Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að þeir þingmenn sem eigi hlut að máli eigi að segja af sér. Þetta kom fram í viðtali við þau og Helgu Völu Helgadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, í morgunútvarpi Rásar 2 áttunda tímanum í morgun. 

Helga Vala segir að þetta hafi ekki með pólitík að gera heldur hatursræðu og ofbeldi. Ekkert mál að fá inn varamenn fyrir þau sex sem sátu á barnum Klaustri og töluðu fólk niður.

Þorsteinn segir að hann hafi aldrei upplifað slíkt tal sem var á barnum hjá sexmenningunum. Svona sé ekki talað í hans vinahópi og hvað þá klukkustundum saman.

Líkt og fram hefur komið var Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, gestur í Kastljósinu í gærkvöldi. 

Hún þakkar á Facebook fyrir þann hlýhug og stuðning sem henni hefur borist og að hún meti hann mikils.

„Ég þurfti minn tíma til að ígrunda þetta mál. Það var erfitt en þarft að fara yfir það og framferði þingmannanna á Klausturbarnum. Ég vil með þessu viðtali senda þau skýru skilaboð að það er gerendans að axla ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Þeir hafa ekki dagskrárvaldið. Ég þakka þann hlýhug og stuðning sem mér hefur borist og met hann mikils,“ segir Lilja á Facebook.

Svandís tekur undir með Lilju með að sterkur einstaklingur myndi axla ábyrgð og hún taki undir með Þorsteini með slíkt tal sem viðhaft var á barnum. 

Helga Vala segir að það væri mjög gott ef sexmenningarnir læri af þessu en það geri þau ekki á Alþingi. Heldur eigi þau að axla ábyrgð. Það yrði gott fyrir þau að læra af gjörðum sínum og þau geti ekki ætlast til þess að þingið, hvort sem það eru starfsmenn þingsins eða þingmenn, eigi að vera í náinni samvinnu við þau. Ekki sé hægt að bjóða öðru fólki upp á þetta og frábært að þau ætli að læra af þessu en það verði þau að gera annars staðar en á Alþingi. 

mbl.is