Guðlaug á Langasandi opnuð almenningi

Það fór vel um fyrstu gesti Guðlaugar.
Það fór vel um fyrstu gesti Guðlaugar. Ljósmynd/Myndsmiðjan

Laugin Guðlaug á Langasandi var formlega opnuð almenningi í dag við hátíðlega athöfn. Fjöldi fólks var viðstaddur opnunina þar sem Ragnar Baldvin Sæmundsson, formaður skipulags- og umhverfisráðs Akraness flutti opnunarræðu.

Að ræðuhöldum loknum var laugin vígð og það voru meðlimir Sjóbaðsfélags Akraness sem voru fyrstir til að skella sér í laugina ásamt öðrum gestum.

Guðlaug samanstendur af útsýnispalli, heitri laug og grynnri laug sem nýtur vatna úr yfirfalli efri laugarinnar. „Útsýni úr lauginni er stórfenglegt, yfir Faxaflóann og til Reykjavíkur,“ segir í tilkynningu frá Akraneskaupstað.

 „Hugmyndin fyrir Guðlaugu kviknaði útfrá dældum sem myndast umhverfis steina á sandinum, þannig myndast litlar náttúrulegar „laugar“ í flæðarmálinu. Þessa hugmynd tókum við svo áfram og formuðum mannvirki á þremur stöllum í sjóvarnargarðinum sem hver og einn hverfist um stakan stein líkt og á ströndinni. Efst er útsýnispallur sem vísar til skipsstafns, í miðjunni er laugin sjálf sem nýtur útsýnis út á hafið og skjóls frá pallinum fyrir ofan, neðst er svo laug þar sem sjórinn og vatnið frá lauginni fyrir ofan blandast,“ segir Hrólfur Karl Cela arkitekt Guðlaugar í tilkynningu.

„Guðlaug er frábær viðbót hér á Akranesi fyrir bæði heimamenn og gesti og eru við yfirfull af stolti að standa hér í dag að vígja laugina.  Guðlaug hefur verið á lista yfir þær framkvæmdir sem Akraneskaupstaður hefur viljað fara í síðustu ár og var það því mikil fengur fyrir okkur að fá 30 m.kr. styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til uppbyggingar laugarinnar ásamt 14 m.kr. styrk frá minningarsjóði um hjónin á Bræðraparti,“ segir Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri í tilkynningu.

Guðlaug verður opin í vetur alla miðvikudaga og föstudaga milli kl. 16-20 og allar helgar milli kl. 10-14. Laugin er gjaldfrjáls og búningsklefar eru á staðnum.

Sjóbaðsfélag Akraness fengu þann heiður að vígja laugina.
Sjóbaðsfélag Akraness fengu þann heiður að vígja laugina. Ljósmynd/Myndsmiðjan
Fjöldi fólks mætti þegar Guðlaug var opnuð formlega.
Fjöldi fólks mætti þegar Guðlaug var opnuð formlega. Ljósmynd/Myndsmiðjan
mbl.is