Hljóp 115 kílómetra á innan við sólarhring

Sigurjón náði góðum árangri á mótinu og hafnaði í þriðja …
Sigurjón náði góðum árangri á mótinu og hafnaði í þriðja sæti í elítuflokki. Í heild tóku 500 manns hvaðanæva úr heiminum þátt í mótinu, Ljósmynd/Aðsend

Sigurjón Ernir Sturluson, hlaupari, hafnaði í þriðja sæti og varð jafnframt efsti Íslendingurinn í hindrunarhlaupinu Iceland Spartan Ultra World Championship, sem lauk í dag í Hveragerði. Hann náði tíu hringjum og 250 hindrunum í hlaupinu, en samtals hljóp hann 115,5 kílómetra með 5,5 kílómetra hækkun, á tímanum 21:20:47. Hann hljóp í elítuflokki ásamt 82 öðrum hlaupurum hvaðanæva úr heiminum, en það var Bandaríkjamaðurinn Ryan Atkins sem hafnaði í fyrsta sæti í hlaupinu. 

„Þetta kennir manni hvað maður getur náð langt, hvað líkaminn er magnað fyrirbæri,“ segir Sigurjón stálsleginn eftir 115 kílómetra hlaupið.

Hlaupið er margslungið. Keppendur hlaupa í náttúrunni, gera margar þrautir á leiðinni og fá varla að hvíla sig. Þeir hafa 24 klukkutíma til að hlaupa á sínum besta tíma, en mega þó hvíla sig í Hamrahöllinni á milli hringja, að hámarki einn klukkutíma í senn. Stór hluti hlauparanna gaf sér ekki tíma í slíkt og hvíldi sig jafnan í 3 mínútur og lagði síðan af stað í næsta hring.

Sigurjón segir keppendur hafa talað um að hlaupið í ár hafi verið erfiðasta hindrunarhlaup sem þeir hefðu tekið þátt í. Í byrjun er hlaupið upp á fjall, í 250 metra hæð, sem tekur ansi á fótunum að sögn Sigurjóns.

„Svo fórum við niður fjallið í fljúgandi hálku – það voru spottar til að halda sér í, svo maður rynni ekki á hausinn. Fólk var að detta, fara úr axlarlið og fleira. Ég datt örugglega fimm sinnum á brautinni en sem betur fer aldrei illa.“

View this post on Instagram

Not your typical climb. 🥶 - #spartaniceland2018 #iceland #spartan #ocr

A post shared by Spartan (@spartan) on Dec 8, 2018 at 8:41am PST


Sigurjón er fjarþjálfari en vinnur einnig sem markaðs- og kynningarstjóri í Sportvörum. Hann hefur haslað sér völl í hindrunarhlaupum undanfarið ár og sigraði t.a.m. spretthlaupið í Spartan-mótaröðinni í fyrra en hann tók þátt í sínu fyrsta hindranahlaupi í september árið 2017.

„Þetta er í rauninni mjög nýtt fyrir mér, þessir keppendur sem eru að sigra mig hafa tekið þátt í fjölda hindrunarhlaupa,“ segir Sigurjón.

Sigurjón byrjaði ungur í Bootcamp-þjálfun en að auki hefur hann keppt í þrekmótaröðinni sem er keimlík hindrunarhlaupunum. Hann segir ástundun sína í hlaupi og lyftingum hafa lagt grunninn að þjálfun hans fyrir mótið en í raun sé erfitt að undirbúa sig fyrir 115,5 kílómetra hlaup.

Fyrstu þrjá tíma hlaupsins var bjart úti en síðan fór …
Fyrstu þrjá tíma hlaupsins var bjart úti en síðan fór að dimma og þurftu þá keppendur að vera með höfuðljós. Að vera með ljósið vandist fljótt, að sögn Sigurjóns. Ljósmynd/Spartan Iceland

„Þú getur aldrei undirbúið þig almennilega fyrir svona hlaup. Þetta er seint eitthvað sem ég myndi mæla með, ég er núna með verki alls staðar í líkamanum og þvílíkar blöðrur á fótunum. Maður þarf alltaf að borga fyrir svona lagað.“

Hvað er það sem fékk þig til að taka þátt í svona krefjandi hlaupi?

„Að sýna sjálfum þér og öðrum hversu megnugur þú ert, sem tengist reyndar inn í starfið mitt sem fjarþjálfari. Ég er alltaf að læra það betur og betur að þú veist ekki hversu gott þú hefur það, fyrr en þú ert kominn í það ástand að þú gætir aldrei haft það verra.

Á fjórða og fimmta hring í hlaupinu var ég gjörsamlega bugaður og búinn á því. Þá áttaði ég mig á því hversu gott maður hefur það í rauninni dagsdaglega.“

Ljósmynd/Spartan Iceland
Ljósmynd/Spartan Iceland
mbl.is