Andlát: Kristrún Eymundsdóttir

Kristrún Eymundsdóttir.
Kristrún Eymundsdóttir.

Kristrún Eymundsdóttir, fyrrverandi framhaldsskólakennari, lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund laugardaginn 8. desember. Hún var 82 ára að aldri.

Kristrún varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1956. Eftir stúdentspróf stundaði hún háskólanám í frönsku í París. Hún lauk BA-prófi í frönsku og ensku frá Háskóla Íslands árið 1967 og prófi í uppeldis- og kennslufræði frá HÍ árið 1971. Hún vann við franska sendiráðið meðfram háskólanámi.

Kristrún var mikil málamanneskja. Hún kenndi frönsku, ensku og dönsku við ýmsa framhaldsskóla, meðal annars við Menntaskólann á Akureyri og síðast við Verzlunarskóla Íslands. Þá var hún leiðsögumaður í mörg ár.

Kristrún var einn af umsjónarmönnum Laga unga fólksins á RÚV frá 1959-1961. Hún þýddi leikritið Síðasta tangó í Salford fyrir RÚV árið 1981 og Alfa Beta eftir Whitehead sem sett var upp í Leikfélagi Akureyrar árið 1978.

Foreldrar hennar voru Þóra Árnadóttir og Eymundur Magnússon skipstjóri.

Eiginmaður Kristrúnar er Halldór Blöndal, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis. Sonur þeirra er Pétur. Dætur Halldórs af fyrra hjónabandi eru Ragnhildur og Kristjana Stella. Fyrri eiginmaður Kristrúnar var Matthías Kjeld læknir. Synir þeirra eru Eymundur og Þórir Bjarki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert