„Fullkomlega óboðleg vinnubrögð“

Mikið er rætt um að leggja veggjöld á allar stofnbrautir …
Mikið er rætt um að leggja veggjöld á allar stofnbrautir landsins um þessar mundir. mbl.is/​Hari

Félag íslenskra bifreiðaeigenda mun beita sér harðlega gegn öllum hugmyndum þingmanna um auknar álögur á bíla og umferð. Félagið mótmælir „yfirstandandi hraðferð vegtolla í gegnum Alþingi“.

Þetta segir í tilkynningu frá félaginu, FÍB, þar sem vinnubrögð þingmanna eru jafnframt sögð „fullkomlega óboðleg.“ Meiri­hluti sam­göngu­nefnd­ar Alþingis mun í mars leggja til að veg­gjöld verði tek­in upp um allt landið til að fjár­magna vega­gerð. Þar með tald­ar eru all­ar stofn­braut­ir inn og út úr höfuðborg­inni.

FÍB leggst gegn þessu „vegna þess að þar er verið að leggja nýja skatta ofan á háa skatta sem bíleigendur og umferð bera nú þegar“. Þá segir félagið að vegtollar mismuni vegfarendum eftir búsetu og ferðatilgangi og leggist þannig þyngst á þá sem minna hafa aflögu. Þannig taki svona gjöld jafnt til námsmannsins á sparneytna smábílnum og til eiganda 30 milljóna króna lúxusjeppans.

FÍB rengir þá ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra í fréttum RÚV í gær um að allir sem hefðu komið fyrir samgöngu- og umhverfisnefnd hafi verið hlynntir vegtollunum. FÍB kveðst hafa lýst eindregnum mótmælum yfir þar.

Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata að veggjöldin væru í raun og veru ekki til umræðu á þinginu, heldur væri hér verið að láta eins og nefndarálit samgöngu- og umhverfisnefndar hefði sama gildi og þingsályktunartillaga, nokkuð sem mun ekki liggja fyrir fyrr en í fyrsta lagi í mars.

Þar að auki benti hann á að gjaldtöku á Reykjanesbraut hefði verið mótmælt, sem stangast enn á við orð Sigurðar Inga í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert