Reyndi ítrekað að kyssa hana

Bára segir að málsatvikalýsing Ágústs sé ekki í samræmi við …
Bára segir að málsatvikalýsing Ágústs sé ekki í samræmi við upplifun hennar af atvikinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ágúst Ólafur reyndi ekki að kyssa mig tví­vegis heldur ítrek­að. Hann reyndi það aftur og aftur þrátt fyrir að ég hefði neitað honum og sett skýr mörk. Í hvert sinn sem ég neit­aði honum þá nið­ur­lægði hann mig með ýmsum hætti.

Þetta kemur fram í pistli Báru Huldar Beck á Kjarnanum þar sem hún svarar yfirlýsingu Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar. Ágúst Ólafur hefur farið í tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum í kjöl­far þess að trúnaðar­nefnd flokks­ins veitti hon­um áminn­ingu vegna fram­komu hans í garð konu í miðbæ Reykja­vík­ur.

Bára segir að málsatvikalýsing Ágústs sé ekki í samræmi við upplifun hennar af atvikinu. Þá upplifun hafi hún rakið fyrir honum og hann gengist við að hún sé rétt. Auk þess rakti hún hana fyrir trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar og Ágúst Ólafur gerði engar athugasemdir við málavexti.

Ætlaði sjálf ekki að gera málið opinbert

Þeir mála­vextir eru raktir í skrif­legri nið­ur­stöðu nefnd­ar­innar og verða þar af leið­andi vart hrakt­ir,“ skrifar Bára. Hún segist knúin til að greina frá því sem rangt er í yfirlýsingu hans vegna þess að Ágúst Ólafur kjósi að gera minna úr atvikinu en hann hafi áður gengist við. „Ég vil líka taka það skýrt fram að það vakti aldrei fyrir mér að gera þetta mál opin­bert. Sú ákvörðun var hins vegar tekin úr mínum hönd­um,“ skrifar Bára.

Hún skrifar að eftir að hann reyndi ítrekað að kyssa hana og niðurlægði hana hafi hún fylgt honum út en hann hafi ekki yfirgefið skrifstofu Kjarnans þegar hún bað hann um það. „Ég fylgdi honum á end­anum ákveðin út með þeim orðum að ég treysti mér ekki til að vera í sama rými og hann. Hann lét samt ekki segj­ast og hélt þving­andi áreitni sinni áfram í lyft­unni á leið­inni út,“ skrifar Bára.

Bára er blaðamaður á Kjarnanum en Ágúst Ólafur er fyrrverandi hluthafi í Kjarnanum. Hún skrifar að það, auk þess að hann hafi verið í opinberu sambandi með annarri konu, hefði átt að gera það að verkum að hann hefði ekki átt að geta misskilið aðstæður.

Segir yfirlýsingu Ágústar ranga

Bára skrifar að það sé ábyrgðarhlutur að senda frá sér yfirlýsingu um mál sem þessi, eins og Ágúst Ólafur gerði. Sé slík yfirlýsing skrumskæld á einhvern hátt sé hætt við að röng og jafnvel varhugaverð skilaboð séu send út í samfélagið.

Yfir­lýs­ing Ágústar Ólafs er ekki í sam­ræmi við mála­vexti. Hún gerir mun minna úr því sem átti sér stað en til­efni var til. Þetta var ekki bara mis­heppnuð við­reynsla, heldur ítrekuð áreitni og nið­ur­læg­ing,“ skrifar Bára.

Pistilinn er hægt að lesa í heild sinni á Kjarnanum.

Yfirlýsing frá Kjarnanum

Stjórn og stjórn­endur Kjarn­ans standa, og hafa stað­ið, 100 pró­sent á bak við starfs­mann fyr­ir­tæk­is­ins sem var í sumar þol­andi áreitni þing­manns.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu Kjarnans vegna málsins.

Þar segir að eftir að fyrir lá viðurkenning geranda á því sem átti sér stað, en eng­inn sýni­legur vilji til að bregð­ast við hegðun sinni með öðrum hætti, hafi þolandi ákveðið að koma vitneskju um áreitnina á framfæri við stjórnmálaflokk geranda. Þar var mál­inu beint í far­veg nýstofn­aðrar trún­að­ar­nefnd­ar.

Sú nefnd komst að þeirri nið­ur­stöðu 27. nóv­em­ber síð­ast­lið­inn að þing­maður flokks­ins hefði brotið gegn tveimur siða­reglum hans. Þing­mað­ur­inn hafi auk þess, með fram­komu sinni, snið­gengið stefnu flokks­ins gegn ein­elti og áreitni og bakað með því félögum sínum í flokknum tjóni. Fyrir þessi brot, gegn starfs­manni Kjarn­ans, sætti þing­mað­ur­inn áminn­ingu trún­að­ar­nefnd­ar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert