Hræðist ekki einkamál

Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í vikunni.
Bára Halldórsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég var að vonast eftir þessari niðurstöðu. Auðvitað er maður ánægður með að það sé búið að fá svar við þessu,“ segir Bára Halldórsdóttir um niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Klausturmálinu.

Þar var hafnað kröfu fjögurra þingmanna Miðflokksins um gagnaöflun og vitnaleiðslur fyrir héraðsdómi.

Málinu er ekki lokið því erindi liggur fyrir hjá Persónuvernd, auk þess sem þingmennirnir hafa boðað að þeir ætli í einkamál. Að sögn Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, verður Klaustursmálið tekið fyrir á stjórnarfundi á morgun. 

Spurð út í stuðninginn sem hún hefur fengið vegna málsins segir Bára að sex manns hafi stoppað hana og lýst yfir stuðningi við hana er hún labbaði stuttan spöl í héraðsdóm í morgun. Það hafi verið ánægjulegt.

Ertu hrædd við að einkamál verði höfðað?

„Ég er ekkert hrædd við það. Það væri bara álag og vinna sem fylgdi slíku máli sem ég myndi vilja sleppa við, verandi ekki alveg heil heilsu,“ segir hún og á við sjálfsofnæmi og gigtarsjúkdóm sem hrjáir hana sem versnar við álag.

„Ég tek því sem að kjafti ber. Vonandi myndi þá koma eitthvað út úr því varðandi réttindi uppljóstrara á Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina