„Stríðsyfirlýsing“ hjá Bjarna

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. mbl.is/Valgarður Gíslason

„Þetta er ekkert annað en stríðsyfirlýsing við kröfur hreyfingarinnar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í Morgunblaðinu í dag. Sagði Bjarni að skattar yrðu ekki lækkaðir ofan á „óábyrgar“ launahækkanir í kjarasamningum.

„Við erum að fara að funda með ríkisstjórninni í dag. Við munum koma okkar sjónarmiðum gagnvart þessum yfirlýsingum mjög sterkt til skila,“ segir Ragnar Þór.

Í umræddu viðtali rifjaði Bjarni upp að ríkisstjórnin hefði „boðað skattalækkanir í þágu þeirra sem eru í neðra þrepinu, lægri og millitekjuhópunum“. Sagði Bjarni „óskynsamlegt að fylgja því eftir ef kjarasamningar fara úr böndunum og menn eru að taka út meira en innistæða er fyrir“. „Þá þarf að huga mjög vel að tímasetningu slíkra aðgerða. Þær eru hugsaðar til að greiða fyrir samningum en ekki til að greiða fyrir óábyrgum samningum,“ sagði Bjarni.

Fundurinn í dag segir mikið til um framhaldið

Ragnar Þór segir VR meta „stöðuna frá degi til dags“. Samninganefnd félagsins hafi umboð til að vísa kjaradeilunni til ríkissáttasemjara ef þurfa þykir.

„Fundurinn með stjórnvöldum í dag verður áhugaverður og hann mun segja mikið til um framhaldið … allavega hjá stóru félögunum. Ég von á því að málin gætu farið að skýrast seinni partinn í dag og í kvöld. Það er samninganefndarfundar hjá Eflingu, sem á eftir að taka ákvörðun, og síðan eigum við eftir að hitta ríkisstjórnina,“ segir Ragnar Þór.

Nýjar niðurstöður Gallupkönnunar fyrir Samtök atvinnulífsins meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna mun lakara mat á aðstæðum í atvinnulífinu en þessi reglubundna könnun hefur sýnt síðan árið 2014.

Ragnar Þór segir aðspurður þetta hluta af áróðri gegn launþegahreyfingunni.

„Mér finnst þetta hljóma svolítið sem partur af þeim áróðri sem við höfum verið að glíma við í aðdraganda kjarasamninga. Ég get þó ekki tjáð mig um efnislegt innihald könnunarinnar fyrr en ég hef farið betur yfir hana,“ segir Ragnar Þór.

mbl.is