Geri samantekt um ólöglega búsetu

Horft yfir höfnin í Hafnarfirði.
Horft yfir höfnin í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bæjarráð Hafnarfjarðar leggur áherslu á að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinni sameiginlega að samantekt á ólöglegri búsetu innan sveitarfélaganna.

„Mikilvægt er að greina þau gögn að lokinni samantekt og vinna heildstæðar tillögur að úrbótum. Mikilvægt er að brunavarnir og útgönguleiðir séu fullnægjandi til að tryggja öryggi íbúanna fyrirfram. Það er forgangsverkefni,“ að því er segir í fundargerð.

Bæjarráð hefur falið bæjarstjóra að taka málið upp innan Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SHS).

1.100 manns í óleyfisbúsetu í Hafnarfirði

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, mætti til fundarins. Fram kemur í svari hans 10. desember við fyrirspurn Hafnarfjarðarbæjar að fjöldi íbúa í óleyfisbúsetu í Hafnarfirði geti verið í kringum 1.100 manns, með fyrirvara um mikil skekkjumörk. Þar vísar hann í minnisblað frá því í júní í fyrra.

Fram kemur í bréfi Jóns Viðars til Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar, frá því í lok september að stjórn SHS hafi falið slökkviliðinu árið 2017 að kortleggja hvort fólk hafi tekið sér búsetu í atvinnuhúsnæði án þess að byggingarleyfi hafi verið veitt fyrir breyttri notkun þess. Í þeirri könnun kom fram að gróft mat á fjölda þeirra sem búa í atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu er á bilinu 3.000 til 5.000 einstaklingar.

Tafarlaus lokun í fjórum tilfellum

„Eftir að þessi kortlagning var gerð hafa SHS borist ábendingar um búsetu í atvinnuhúsnæði. Í fjórum tilvikum var farið í tafarlausa lokun og málið kært til lögreglu samkvæmt 12. gr. c. lið laga um brunavarnir,“ sagði Jón Viðar í bréfi sínu.

„Ef þið áformið að fela byggingarfulltrúa að fara í frekari aðgerðir gagnvart búsetu í atvinnuhúsnæði í ykkar sveitarfélagi óskar SHS eftir því að haft verði samráð um slíka framkvæmd.“

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, til hægri, að störfum í Miðhrauni.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri, til hægri, að störfum í Miðhrauni. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert