Úr rimlarúmi í jepparúm

Sigurþór býst við því að strákarnir verði mjög ánægðir með …
Sigurþór býst við því að strákarnir verði mjög ánægðir með nýju rúmin. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur verið hellingsvinna og meira en ég átti von á,“ segir Sigurþór Friðbertsson. Hann er búinn að smíða tvö rúm handa tveggja ára tvíburasonum sínum en rúmin eru smíðuð þannig að þau líti út eins og Willys jeppar; nokkurs konar jeppa-barnarúm.

Sigurþór segir að strákarnir, Alexander Freyr og Kristinn Jarl, séu miklir jeppakallar. Þeir fari úr rimlarúmi yfir jepparúm.

Sigurþór útskýrir að faðir hans hafi keppt í torfæru í fjölda ára og sjálfur hafi hann nánast alist upp í Willys jeppa. „Þetta er fjölskyldutákn og hefur alltaf verið.“

Frá smíðinni.
Frá smíðinni. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir að vinnan við smíðina hafi tekið talsverðan tíma og bendir blaðamanni á að dekkin undir rúmunum séu undan fjórhjóli sem faðir hans átti.

„Það er ágætt þegar maður fer af stað í svona að vita ekki hversu mikil vinna þetta er af því að þá hættir maður kannski við,“ segir Sigurþór og hlær.

Flest börn fara úr rimlarúmi yfir í „hefðbundin“ barnarúm og Sigurþór játar því að hann sé að taka óhefðbundið skref. „Konan sagði að ég mætti ekki setja þetta inn fyrr en á laugardagsmorgni svo þeir væru búnir að hoppa á því allan daginn áður en þeir færu að sofa á því. Það gæti gengið svolítið erfiðlega fyrstu næturnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert