Skýrist á næsta fundi hvort fari í hart

Verkalýðsleiðtogar á fundinum í dag. Á næstunni verður fundað nokkuð …
Verkalýðsleiðtogar á fundinum í dag. Á næstunni verður fundað nokkuð hjá sáttasemjara. mbl.is/Eggert

„Ég vona það besta, en ég held að menn þurfi einfaldlega að búa sig undir það versta,“ sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness er mbl náði af honum tali eftir fund hjá ríkissáttasemjara í hádeginu. Málum vatt lítt fram á fundinum, að sögn viðmælenda mbl.is eftir fundinn.

Ragnar Þór Ingólfsson segir að eftir næsta fund í næstu viku muni skýrast hvort deilurnar fari í hart.

„Það liggur fyrir hvaða ráðstöfunartekjur fólk þarf til að lifa af,“ segir Vilhjálmur. Menn kynntu á fundinum kröfugerðir sínar. Það er annar fundur að viku liðinni.

Fyrsti fundur hjá ríkissáttasemjara var áttur á milli jóla og nýárs en nú er fundardagskrá þar hafin formlega. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari vildi lítt leggja mat á hvernig viðræðurnar horfðu við henni og hennar embætti, sagði sitt hlutverk í þessu að miðla málum. „Fólk er ekki að koma fyrst að samningaborðinu,“ sagði hún hins vegar, „þetta eru aðilar sem eru búnir að reyna, áður en þeir koma til mín.“

Skýrist hvort í hart fari í næstu viku

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði það jákvæða við þennan fund það að nú fari loks að skýrast hvað Samtök atvinnulífsins séu tilbúin að gera til að mæta kröfum verkalýðsfélaganna.

Halldór Benjamín Þorbergsson formaður Samtaka atvinnulífsins sagðist í Fréttablaðinu í dag vera tilbúinn að hafa samningana afturvirka. Ragnar rengir það loforð: „SA hafa í raun hafnað því alfarið að samningar gildi frá 1. janúar þar sem fyrirvarar sem þeir setja eru algerlega óásættanlegir,“ segir hann.

Spurður hvort nú fari í hart segir Ragnar: „Það er of snemmt að fullyrða um það eftir þennan fund en það mun væntanlega skýrast eftir næsta fund á miðvikudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert