Katrín fundaði með Samherjamönnum í gær

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með fulltrúum Samherja í gær.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði með fulltrúum Samherja í gær. mbl.is/​Hari

Fulltrúar Samherja funduðu með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í gær um ólögmæta stjórnvaldssekt sem Seðlabanki Íslands lagði á fyrirtækið og væntanlega skýrslu bankaráðs vegna málsins. Þetta staðfesti ráðherrann í samtali við mbl.is í kjölfar ríkisstjórnarfundar í ráðherrabústaðnum í dag.

„Þeir [Samherji] hafa óskað eftir fundi lengi og ég ætlaði mér nú að geyma þann fund þar til greinargerð bankaráðs lægi fyrir. En í ljósi frestunar bauð ég þeim að koma og skýra frá sinni hlið mála og þau gerðu það í gær,“ segir Katrín.

Beðið eftir greinargerð bankaráðs

Hæstiréttur staðfesti 8. nóvember dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella úr gildi 15 milljón króna stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn lagði á Samherja fyrir brot á gjaldeyrislögum.

Í kjölfarið fór forsætisráðherra fram á að bankaráð bankans myndi gera greinargerð um málið og var því gert að skila greinargerðinni 7. desember, hún hefur þó ekki verið birt ennþá.

Spurð um þær tafir sem hafa orðið á greinargerðinni segir Katrín: „Nú er það þannig að bankaráð heyrir ekki undir mig, heldur er sjálfstætt og er kosið af Alþingi og fer með það hlutverk að hafa eftirlit með því að Seðlabankinn fylgi lögum.“

Hún bætir við að bankaráð hafi tilkynnt sér að ráðið hefur þurft meiri tíma til þess að ljúka sinni vinnu, „en ég á nú von á því að þetta skili sér bráðlega.“ Fundur Katrínar með fulltrúum Samherja í gær hefur engin áhrif á framvindu málsins að sögn hennar.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur gagnrýnt seðlabankastjóra, Má Guðmundsson, og sagði í opnu bréfi til Seðlabanka Íslands í desember að Gylfi Magnússon, formaður bankaráðs, virðist ætla að bíða eftir hugsanlegu áliti umboðsmanns Alþingis í máli sem varðar ekki lyktir málsins á hendur Samherja, til þess að komast hjá því að taka sjálfur afstöðu til og afgreiða málið sjálfur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert