Metoo-hópur stofnaður um Jón Baldvin

Ljósmynd/Thinkstock

Hópur kvenna hefur stofnað Facebook-hóp þar sem fjallað er um „upplifun kvenna af áreitni og/eða ofbeldi Jóns Baldvins Hannibalssonar,“ eins og segir á síðunni.

Síðan nefnist #metoo Jón Baldvin Hannibalsson Tæpitungulaust og eru yfir 150 einstaklingar skráðir í hópinn, en síðan var stofnuð 8. janúar.

Í lýsingu hópsins eru konur sem hafa lent í sams konar reynslu hvattar til að deila sögu sinni. 

Jón Baldvin, sem er fyrrverandi ráðherra og formaður Alþýðuflokksins, segir í samtali við fjölmiðla að hann hyggist ekki tjá sig um einstök mál á þessari stundu. „Ég mun gera það þegar þar að kemur en ég mun velja stað og stund sjálfur,“ sagði Jón Baldvin í samtali við Rúv í kvöldfréttum. Það verði þegar ljóst er megnið af sögunum er komið fram.

Jón Baldvin Hannibalsson.
Jón Baldvin Hannibalsson. mbl.is/RAX

Stundin hefur í gær og í dag fjallað ítarlega um meint brot Jóns Baldvins, en í nýjasta blaði Stundarinnar hafa fjórar konur sakað Jón Baldvin um kynferðislega áreitni, en málin eru sögð teygja sig yfir um 50 ára tímabil, en það nýjasta er sagt hafa átt sér stað á síðasta ári.

Í samtali við Stundina sagði Jón Baldvin að frásagnir kvennanna ættu rætur að rekja til dóttur hans, Aldísar Schram, og hann kallar málið „fjölskylduharmleik“. Hann sagði enn fremur að Aldís hafi átt við geðræn vandamál að stríða. 

Í yfirlýsingu sem Aldís birti á Facebook-síðu sinni og sendi sömuleiðis á fjölmiðla vísar hún slíkum ásökunum á bug og birtir m.a. afrit af tveimur læknisvottorðum heimilislækna frá árunum 2012 og 2014 máli sínu til stuðnings. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert