Tekjur hafa aukist meira en skattbyrði

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Arnþór

Réttilega hefur verið bent á að skattbyrði lægstu launa hefur aukist en það sýnir ekki heildarniðurstöðuna. Einnig þarf að skilja hvernig tekjur Íslendinga hafa þróast í gegnum árin. Þetta kom fram í máli Ásdísar Kristjánsdóttur, forstöðumanns efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, á hinum árlega Skattadegi Deloitte sem var haldinn í Hörpu í morgun.

Hvað lágmarkslaun varðar hefur skattbyrði á síðustu 10 árum aukist en útborguð laun eftir skatt og bótagreiðslur hafa aftur á móti aukist meira, eða um 17%. Þarna er miðað við tölur frá 2008 til 2018.

Varðandi meðallaunin hefur skattbyrði einnig aukist en útborguð laun eftir skatt og bótagreiðslur hafa aukist meira, eða um 11%. Þegar kemur að tekjum yfir meðallagi hefur skattbyrði einnig aukist síðustu tíu árin á meðan útborguð laun hafa aukist um 9% meira.

Þannig hafi skattbyrði aukist á undanförnum árum en á móti hafi ráðstöfunartekjur aukist enn meira.

Ásdís á Skattadeginum í Hörpu í morgun.
Ásdís á Skattadeginum í Hörpu í morgun. mbl.is/Freyr

Ásdís bar tekjur á Íslandi saman við gagnagrunn OECD sem sýnir að Íslendingar eru með þriðju hæstu tekjurnar innan OECD. Laun á Íslandi séu því há í alþjóðlegum samanburði jafnvel þótt leiðrétt sé fyrir háu verðlagi.

Hún kvaðst binda vonir við að skattar lækki á komandi árum enda sé Ísland háskattaríki í alþjóðlegum samanburði. Nær hvergi annars staðar dragi hið opinbera til sín meira í formi skatttekna. Þriðjungur af þeim tekjum sem myndast í hagkerfinu hérlendis renna til hins opinbera, samkvæmt tölum OECD. Hún sagði að skapa þurfi svigrúm til skattalækkana. Blikur séu á lofti í íslensku efnahagslífi og vísbendingar þess efnis að kólnun sé fram undan.

Tillögur um skattleysi lægstu launa séu með öllu óraunhæfar ef ekki náist almenn sátt um verulegar skattahækkanir á flesta aðra tekjuhópa. 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vísaði sams konar tillögum á bug í opnunarávarpi sínu.

Hún benti á svar fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Inga Jóhannssonar, þingmanns Flokks fólksins, um að það myndi kosta ríkissjóð 149 milljarða króna ef lægstu laun yrðu skattlaus, sem nemur 83% af tekjuskattgreiðslum einstaklinga til ríkisins. Slíkar tillögur hljóti að öðru óbreyttu að leiða til talsverðra skattahækkana á aða tekjuhópa.

Ásdís nefndi að helmingur launamanna á Íslandi sé með laun á bilinu 500 til 800 þúsund krónur. Ef brúa þyrfti þessa 149 milljarða þýddi það aukna skattbyrði á tekjur á þessu launabili.

Hún sagði tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga hafa aukist um 52% á föstu verðlagi frá árinu 2010. Hlutfall þeirra sem greiða tekjuskatt til hins opinbera hefur farið úr 60% í 86% frá árinu 1992 til 2017, sem er sambærilegt hlutfall og í Noregi og Danmörku. Ef lækka eigi þetta hlutfall muni skattbyrði þeirra sem taka þátt í að fjármagna samneysluna aukast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert