Finnst ekki gaman einum í vinnunni

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það yrði tómlegt á …
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það yrði tómlegt á Alþingi ef þingmenn ættu sjálfir að ráða hvort aðrir þingmenn sætu þar. mbl.is/Hanna

„Vill einhver segja fjölmiðlamönnum og miklu fleirum að löggjafarsamkundan er ekki eins og hver annar vinnustaður þar sem forstjórinn ræður menn og rekur. Jafnframt að það sé ekki svo að einstaka þingmenn ákveði hvaða aðrir þingmenn starfi með þeim við löggjafarstörf.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag vegna Klaustursmálsins og gagnrýni ýmissa þingmanna á að þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins, hafi ákveðið að taka sæti sín á ný á þingi eftir að hafa tekið sér launalaust leyfi í tæpa tvo mánuði í kjölfar Klaustursmálsins.

Brynjar bætir því við að það „eigi ekki að koma öðrum á óvart að kjörnir þingmenn mæti í þinghúsið til starfa án sérstakra tilkynninga fyrirfram, þótt þeir hafi verið einhvern tíma leiðinlegir og dónalegir. Þá væri talsverðar líkur á að þinghúsið væri meira og minna mannlaust. Mér finnst ekkert gaman einum í vinnunni.“

Þeir Gunnar Bragi og Bergþór mættu til starfa á Alþingi í gær fyrr en upphaflega stóð til og fengu kaldar viðtökur frá sumum samþingmönnum sínum. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sagði  til að mynda að það hefði komið henni á óvart og að hún hefði ekki verið sátt við það framferði þingmannanna tveggja.

mbl.is

Bloggað um fréttina