Íslensk vegabréf í nýrri útgáfu

Landamæraeftirlit í flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Landamæraeftirlit í flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðskrá vinnur nú að lokaundirbúningi nýrra vegabréfa. Verða þau jafnvel tilbúin á morgun, 1. febrúar, og í síðasta lagi hinn þriðja. „Þeir sem eru með gild vegabréf þurfa ekkert að óttast, þau eru alveg jafn örugg og nýja útgáfan,“ segir Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands.

Margét segir að þeir sem eru með vegabréf í gildi geti fengið nýju útgáfuna en það sé engin þörf á því. Ef fólk hins vegar kjósi að fá sér nýju útgáfuna sæki það um hjá sýslumanni, skili gamla vegabréfinu og greiði 13.000 krónur fyrir það nýja, sem er sama verð og á gömlu vegabréfunum.

Margrét segir afgreiðslutíma vegabréfa nú tvo daga og svo hafi verið frá miðju sumri. Markviss og mikil vinna hafi verið lögð í það hjá Þjóðskrá að bæta þjónustu og straumlínulaga alls kyns ferla. Árangurinn hafi skilað sér m.a. í tveggja daga afgreiðslufresti á vegabréfum.

Margrét segir helstu breytingarnar í nýja vegabréfinu felast í auknu öryggi í framleiðslukerfi og breyttu útliti vegagerðarbóka.

Gamla vegabréfið gildir áfram en það tekur aðeins tvo daga …
Gamla vegabréfið gildir áfram en það tekur aðeins tvo daga að fá nýtt vegabréf. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kápan áfram blá

„Helstu útlitsbreytingarnar felast í landslagsmyndum á hverri opnu úr öllum landshlutum. Ekki er eingöngu um hefðbundna ferðamannastaði að ræða en staðirnir voru valdir í samráði við landsbyggðina. Á blaðsíðunni við hlið landslagsmyndarinnar er Íslandskort þar sem staðsetning myndarinnar er merkt með punkti,“ segir Margrét og bætir við að heiðlóan sé áberandi í nýja vegabréfinu og það sé mannbætandi að horfa á fallegar landslagsmyndir. Að sögn Margrétar verður kápan áfram í bláa litnum sem einkennt hefur íslensk vegabréf um langa hríð.

Þrír þættir voru boðnir út á evrópska efnahagssvæðinu; framleiðslukerfið, vegabréfabókin og vottorðakerfið. Hagstæðast hafi verið talið að láta framleiða vegabréfabækurnar í Póllandi hjá fyrirtæki sem einnig sjái um framleiðslu á peningaseðlum, en svipaðir öryggisþættir þurfi að vera fyrir hendi við prentun vegabréfabóka og peninga.

Margrét segir Þjóðskrá Íslands sjá um að gefa út öll vegabréf og persónugera þau með mynd og rithandarsýnishorni.

Að sögn hennar hefur ný útgáfa verið í undirbúningi síðan 2015. Gamla framleiðslukerfið hafi ekki verið nógu öruggt að mati Þjóðskrár, hvorki uppfyllt öryggiskröfur Evrópusambandsins né alþjóðlega staðla.

Vegabréf á tveimur dögum

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir Þjóðskrá hafa staðið vel að breytingum á útgáfu vegabréfa á Íslandi síðastliðin fjögur ár. „Breytingarnar auka öryggi íslenskra vegabréfa en mikilvægt er að við séum ávallt vakandi fyrir nýjum leiðum til að tryggja öryggi á þessum vettvangi í takt við alþjóðlegar kröfur og staðla,“ segir Sigríður og bætir við að það hafi verið ánægjulegt að sjá verkinu vinda fram hratt og örugglega en verkefnið hafi klárast innan þeirra áætlana sem lagt var upp með. Hún segir gott að sjá þann mikla árangur sem náðst hefur við að stytta afgreiðslutíma vegabréfa, sem nú er aðeins tveir dagar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert