Bakki kostaði ríkið 4,2 milljarða

4,2 milljarða reikningur féll á ríkissjóð vegna kísilvers PCC á …
4,2 milljarða reikningur féll á ríkissjóð vegna kísilvers PCC á Bakka við Húsavík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Gerð jarðganga undir Húsavíkurhöfða og tilheyrandi vegtengingar vegna kísilvers PCC á Bakka var um 1,7 milljarða króna, 96%, umfram upphaflega áætlun, að því er fram kemur í skriflegu svari Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn Birgis Þórarinssonar, þingmanns Miðflokksins.

Jafnframt er ekki ljóst hvort rúmlega 800 milljóna lán til hafnarsjóðs fæst endurgreitt.

Endanlegur kostnaður ríkissjóðs varð 3,5 milljarðar samkvæmt upplýsingum sem Vegagerðin veitti ráðuneytinu 5. desember síðastliðinn. Hins vegar hafði aðeins verið veitt heimild til þess að ráðstafa allt að 1,8 milljörðum króna til uppbyggingar innviða vegna atvinnustarfsemi á Bakka.

Þá segir að „þegar hönnun lá fyrir var kostnaður endurmetinn og áætlaður samtals 3.000 milljónir króna, fjárveiting til Vegagerðarinnar vegna verkefnisins var veitt í fjárlögum fyrir árin 2015, 2016 og 2017.“ Framkvæmdin endaði þó 525 milljónir umfram endurmetna áætlun, eða 17,5%.

Kostnaður gæti náð fimm milljörðum

Til viðbótar við framkvæmdirnar bættist við kostnaður sem var skipt milli undirbúnings lóðar og þjálfunar starfsmanna. Endaði heildarkostnaður ríkissjóðs vegna kísilversins í rúmlega 4,2 milljörðum króna.

Þá er ekki talið með 819 milljóna króna lán sem var veitt hafnarsjóði og segir í svarinu að ekki sé ljóst hvort arðsemi hafnarinnar muni duga til þess að greiða til baka þau lán sem tekin voru vegna stækkunar hafnarinnar.

Ríkissjóður tók þátt í undirbúningi lóðar undir kísilverið og var veitt heimild til greiðslu allt að 558 milljóna króna vegna þessa og skiptist upphæðin á árin 2014 og 2015. Þar sem framkvæmdum var frestað fluttist fjárveitingin til áranna 2015 og 2016, en samkvæmt uppgjöri var sá kostnaður sem féll á ríkið 460 milljónir króna.

Ríkissjóður hefur einnig kostað þjálfun starfsfólks, en sá kostnaður var 236 milljónir króna sem skipt er milli áranna 2017 og 2018.

mbl.is

Bloggað um fréttina