Vilja innflutningstolla á kísilmálm frá Íslandi

Frá framleiðslu PCC á Bakka.
Frá framleiðslu PCC á Bakka.

Tvö stór bandarísk kísilmálmfyrirtæki hafa skorað á viðskiptaráðuneyti og viðskiptaráð Bandaríkjanna að leggja innflutningstolla á kísilmálm sem fluttur er frá Íslandi og þremur öðrum löndum. Byggir áskorunin á því að framleiðsla í þessum löndum, þar með talið á Íslandi, hafi notið ósanngjarnrar niðurgreiðslu við framleiðslu og þannig getað selt vöruna á mun lægra verði en eðlilegt gæti talist.

Um er að ræða bandarísku kísilmálmfyrirtækin Ferroglobe og Mississippi Silicon, en þau telja að fyrirtæki á Íslandi, í Bosníu, Malasíu og Kasakstan hafi selt málminn á allt að 54-85% lægra verði en á mörkuðum á síðustu þremur árum og að það hafi skaðað bandaríska framleiðendur. Fréttablaðið vakti fyrst athygli á málinu hér á landi.

Í tilkynningu til kauphallar í Bandaríkjunum segja fyrirtækin að um sé að ræða svipaða stöðu og í maí þegar viðskiptaráðið hafi komist að þeirri niðurstöðu að Rússland hefði niðurgreitt óeðlilega framleiðslu kísilmálms þar í landi. Voru innflutningstollar í kjölfarið settir á kísilmálm þaðan.

Í Fréttablaðinu er rætt við Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóra PCC á Bakka, sem sagðist ekki geta tjáð sig um aðgerðir bandarísku fyrirtækjanna og að hann biði viðbragða frá yfirstjórn PCC í Þýskalandi.

Auk PCC hafa fyrirtækin United silicon og Elkem framleitt kísilmálm hér á landi. United silicon hætti framleiðslu árið 2017 vegna ýmiss konar vandamála sem komu upp, meðal annars í tengslum við mengun frá kísilverinu. Var fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota í byrjun árs 2018. í lok júní var greint frá því að PCC hefði sagt upp 80 starfsmönnum og að framleiðslan hefði verið stöðvuð tímabundið. Var meðal annars vísað til áhrifa af kórónuveirufaraldrinum.

Segir Fréttablaðið jafnframt að flutt hafi verið inn 19 þúsund tonn af kísilmáli frá Íslandi til Bandaríkjanna í fyrra og að magnið hafi verið 5.500 tonn á fyrsta fjórðungi þessa árs. Miðað við að framleiðsla PCC hafi ekki náð fullum afköstum fyrr en í lok síðasta árs og heildarframleiðslan frá upphafi hafi numið 32 þúsund tonnum eru því leiddar líkur að því að um gamlar birgðir framleiddar af United silicon í Helguvík sé að ræða.

Uppfært 4. júlí: Framkvæmdastjóri Stakksbergs segir fyrirtækið ekki hafa selt neinn kísilmálm síðan félagið keypti eignir United silicon. Sjá frétt hér að neðan:

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK