Tækifæri til bjartsýni

Þórður Vilberg Oddsson gaf út ljóðabókina Tækifæri nýverið en Þórður …
Þórður Vilberg Oddsson gaf út ljóðabókina Tækifæri nýverið en Þórður byrjaði snemma að semja vísur. mbl.is/Árni Sæberg

Þórður Vilberg Oddsson hefur alltaf verið mikill íslenskumaður og mikill áhugamaður um kveðskap. Hann hefur ort ljóð allt frá því í barnæsku og gaf út sína fyrstu ljóðabók 16. nóvember, á degi íslenskrar tungu.

„Ég byrjaði snemma að semja vísur. Fyrsti kveðskapurinn kviknaði þegar ég var í barnaskóla. Í menntaskóla má segja að ég hafi byrjað að semja af einhverri alvöru, þá sendum við bekkjarbræður fyrriparta og botna okkar á milli í tímum,“ segir Þórður á baksíðu bókarinnar.

Hann segir að það hafi staðið til í 20-25 ár að gefa út bókina en Þórður hefur samið fjölmargar vísur fyrir vini og kunningja í gegnum árin. Meðal annars tækifærisvísur á afmælisdögum og við önnur tækifæri í lífi fólks.

„Þegar ég skoða allar þessar vísur sem ég hef haldið til haga allt frá árinu 1994 sé ég að þær eru eins konar dagbók. Þar er ég meðal annars að fjalla um stjórnmálin á hverjum tíma, stjórnarviðræður, nýjar ríkisstjórnir, Icesave, forsetakosningar og fleira. Eins eru þetta lýsingar á fólkinu í kringum mig, meðal annars fólki sem því miður er fallið frá,“ segir Þórður. 

Í bókinni er meðal annars ljóð sem Þórður samdi og var flutt við lagið Finlandia eftir Sibelius við jarðarför móður Þórðar, Soffíu Kristínar Hjartardóttur, árið 2007 og stjúpföður hans, Harðar Barðdal, árið 2009. 

Að sögn Þórðar er ljóðið eitt þeirra sem honum þykir vænst um í bókinni auk ljóða sem hann hefur samið til eiginkonu sinnar og barna við ýmis tækifæri. „Þetta er að mörgu leyti persónuleg bók og kannski leið mín til þess að koma þessu frá mér,“ segir Þórður.

Þórður vinnur hjá tryggingarfélaginu Allianz á Íslandi og vann lengi innan bankageirans, bæði hjá Íslandsbanka og Straumi en hann lauk diplómanámi í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst.

Þegar Þórður vann hjá Íslandsbanka var haldin keilukeppni á milli deilda í höfuðstöðvum bankans og voru reglurnar þær að ekki mætti senda áskorun á næstu deild nema í bundnu máli. Þannig að oft var leitað í smiðju Þórðar eftir kvæði.

Þar samdi hann margar vísur um starfsfélaga og eins vísur fyrir árshátíðir, afmæli og brúðkaup og við fleiri tækifæri. 

„Mér hefur oft verið bent á að gefa vísurnar út en aldrei látið verða að því fyrr en nú með aðstoð fyrrverandi vinnufélaga, Sigurðar Sigurðarsonar, sem hannaði bókina og braut um. „Ég hefði aldrei getað þetta án hans góðu hjálpar,“ segir Þórður.

„Tilgangurinn með útgáfunni var ekki að öðlast frægð og frama né heldur að græða á bókinni heldur miklu fremur að koma þessu frá mér. Það tókst og ég er ánægður með það,“ segir Þórður.

Mjög misjafnt er hvernig Þórði gengur að yrkja og suma daga rekur hvorki né gengur enda er honum annt um að láta ekkert frá sér nema hann sé sáttur. Eitt af því sem einkennir ljóð Þórðar eru stuðlar og höfuðstafir og segir hann að það sé metnaðarmál hjá honum að ljóðstafir séu í vísunum. 

Hann yrkir mikið og kvöldið áður en blaðamaður hitti Þórð hafði hann sett saman tvær vísur. Hvorug þeirra fékk að lifa og enduðu báðar í ruslinu þar sem skáldið var ekki var ekki sátt við niðurstöðuna. Báðar voru um þau mál sem helst eru í umræðunni þessa dagana. 

Bjartsýni einkennir kveðskap Þórðar og heitir bók hans Tækifæri. „Ég skilgreini kveðskap minn ekki sem tækifærisvísur. Tækifæri er í mínum huga gott orð og fullt bjartsýni,“ segir Þórður spurður út í nafn bókarinnar. 

Að sögn Þórðar finnst honum gott að koma hlutunum frá sér og um leið að segja skoðanir sínar á málefnum líðandi stundar með því að semja um þá vísur. 

Þórður heldur úti síðu á Facebook sem nefnist Tækifærisvísur og ljóð og þangað rata inn vísur um veðrið, lífið og tilveruna. „Þangað set ég ekki í vísur tengdar pólitík,“ segir Þórður og brosir. 

Allur ágóði af sölu bókarinnar rennur til LAUFs, félags flogaveikra, en Þórður hefur verið  flogaveikur frá því hann var 11 ára gamall. „Mér fannst vel við hæfi að allur ágóði af sölu bókarinnar myndi renna til LAUFs, félags flogaveikra, þar  sem ég hafði engan áhuga á að bókin myndi skila mér ágóða.“

Þórður segir að fyrsta flogakastið hafi komið þegar hann var 11 ára gamall og eftir það fylgdi honum alltaf einhver af samnemendum hans í skólanum þegar flogakast var í vændum. Skólasystkini hans vissu öll af veikindum hans og að sögn Þórðar þurfti hann ekki annað en að rétta upp hönd og ganga út til þess að eitthvert þeirra fylgdi á eftir til að gæta hans. Hann hefur alla tíð verið mjög opinn varðandi veikindi sín og flogaveikin ekkert feimnismál. 

Frá því Þórður fékk fyrsta flogakastið hefur orðið mikil þróun varðandi þekkingu á sjúkdómnum og lyfjagjöf. Köstin hafa líka tekið breytingum, hann missir meðvitund en það er alltaf fyrirvari á því þannig að hann veit hvað er í vændum. 

Hann hefur verið hætt kominn vegna flogaveikinnar og var nálægt því að drukkna í eitt skipti. Þar varð snarræði dóttur hans honum til bjargar.

Fjölskyldan var stödd á baðströnd og var Þórður að leika sér í öldunum ásamt dóttur sinni, sem var 12 ára gömul. Þórður missti meðvitund í sjónum en hún náði að koma honum til bjargar og var hann fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús. 

Á vef LAUFs segir svo um krampaflog í vatni: 

Þegar aðstoða á fólk sem fær krampaflog í vatni gilda sömu reglur og þegar bjarga á manni frá drukknun. Mjög erfitt er að greina flog í vatni og oft er því ekki vitað að um slíkt er að ræða fyrr en að er komið. Ráðlagt er að fá aðstoð því krampaflogið gerir björgunarstarfið erfitt. Nauðsynlegt er að halda fólki þannig í vatninu að andlit og höfuð þess séu fyrir ofan yfirborð vatnsins.

Það þarf að koma viðkomandi úr vatninu eins fljótt og mögulegt er. Þá er ástandið kannað, þ.e. hvort kippirnir eða kramparnir séu hættir og hvort öndun er eðlileg (oft stöðvast öndun í krampaflogi en hefst þó venjulega strax og því lýkur). Ef engin öndun er merkjanleg þegar flog er yfirstaðið skal nota blástursaðferð eins og í öðrum björgunartilfellum. Öllum sem fá flog í vatni þarf að koma undir læknishendur sem fyrst til að kanna hvort vatn hafi komist í lungu.

Þórði var sagt á sínum tíma að flogaveikin myndi eldast af honum en það er ekki raunin. „Ég man vel eftir viðtali hjá lækni sem var á þeim tíma nýkominn úr námi í Bandaríkjunum. Hann sagði við mig: Nei Þórður þetta mun ekki eldast af þér. Ég viðurkenni að þessi orð læknisins voru ákveðið áfall en læknirinn, Kári Stefánsson, sem nú er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hafði rétt fyrir sér,“ segir Þórður Vilberg Oddsson. 

Þórður annast sjálfur útgáfu og sölu á bókinni og er hægt að hafa samband við hann í gegnum Facebook-síðuna Tækifærisvísur og ljóð og netfangið torduro@simnet.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert