Héldum að við værum með allt á hreinu

Ríkulegt úrval flugelda var hjá Flugbjörgunarsveitinni á Flugvallarvegi fyrir áramótin. …
Ríkulegt úrval flugelda var hjá Flugbjörgunarsveitinni á Flugvallarvegi fyrir áramótin. Merkingar um sprengihættu hafa aðeins verið á stærstu kökunum og flutningsumbúðum, en verða eftirleiðis á öllum kökum. mbl.is/Hari

Við héldum að við værum með allt okkar á hreinu þegar flugeldarnir voru orðnir CE-vottaðir en svo var greinilega ekki, segir Jón Ingi Sigvaldason hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg í samtali við mbl.is. 

Umhverfisstofnun greindi frá því fyrir helgi að eng­ir skoteld­ar af þeim 25 sem voru skoðaðir í eft­ir­liti stofn­un­arinnar á milli jóla og ný­árs hefðu reynst merkt­ir með full­nægj­andi hætti. Samkvæmt reglu­gerð nr. 415/​2014 um flokk­un, merk­ingu og umbúðir efna og efna­blanda ber að merkja flugelda með hættumerkinu „sprengifimt“ vegna sprengihættu sem af þeim stafar og þá eiga einnig að vera á umbúðunum staðlaðar hættu- og varnaðar­setn­ing­ar á ís­lensku sem lýsa eðli hætt­unn­ar, auk leiðbeininga um ör­ugga notk­un, geymslu og förg­un.

Í úr­taki eft­ir­lits Um­hverf­is­stofn­un­ar reyndist merkingum á þeim 25 flugeldum, frá þeim sex birgj­um sem eru ráðandi á markaði hér á landi, „mjög ábóta­vant“, að því er sagði í til­kynn­ing­u Umhverfisstofnunar.

Töldu CE-merkingarnar duga

„Með CE-reglugerðinni eru ákveðnar merkingar sem eiga að vera á kökunum og þær eru á öllum okkar vörum sem eiga að vera CE-merktar,“ segir Jón Ingi. „Síðan er önnur reglugerð sem enginn virðist hafa áttað sig á, og þeir virðast raunar ekki hafa áttað sig á því sjálfir fyrr en nú, sem snýr að þessum varúðarmerkingum um sprengihættuna.“ 

Hann segir Slysavarnafélaginu hafa verið bent á þetta í desember og við því hafi verið brugðist með því að láta gera límmiða sem munu fara á allar nýjar kökur og allar eldri kökur.

Flugeldar sem seldir eru hjá Landsbjörg hafa verið CE-merktir og …
Flugeldar sem seldir eru hjá Landsbjörg hafa verið CE-merktir og nú bætist merkingin um sprengihættu við. mbl.is/​Hari

„Þessir límmiðar eru á sumum af stærri kökunum,“ bætir hann við og segir þá vera nauðsynlegar flutningsmerkingar. Þeir séu hins vegar ekki á minni kökunum, „en þeir verða það þó klárlega næst“.

CE-merkingarnar heyra undir Neytendastofu, en svo virðist ekki vera um þessar merkingar. „CE-vottunin snýr að viðskiptavininum, en þetta eru merkingar sem eru neytendamerkingar en virðast samt ekki snúa að neytandanum, heldur því að flugeldarnir springi og annað slíkt og það heyrir undir Umhverfisstofnun,“ útskýrir Jón Ingi.

Erfitt að fara eftir reglugerð sem maður veit ekki af

Hann segir Slysavarnafélagið hafa sett sig í samband við þýska fyrirtækið sem vottar flugelda þess um leið og málið kom upp og fengið þá þau svör að það væri undir hverju landi komið að óska eftir merkingunni.

„Þessi reglugerð er jafn rétthá, en flokkast ekki undir CE-vottun eins skrýtið og það er. Það er hins vegar erfitt að fara eftir reglugerð sem maður veit ekki um og hefur aldrei verið minnst á,“ segir Jón Ingi og kveðst ekki skilja hvers vegna innflytjendum hafi ekki verið bent á þetta fyrir löngu síðan.

„Þetta er samt hlutur sem við bregðumst að sjálfsögðu strax við,“ bætir hann við og segir merkingarnar nú orðnar hluta af gæðakerfi Landsbjargar.

mbl.is