Ákærðir fyrir íkveikju í Sandgerði og fleira

Áhaldaskúr Sandgerðisbæjar var ónýtur eftir íkveikjuna í maí árið 2008.
Áhaldaskúr Sandgerðisbæjar var ónýtur eftir íkveikjuna í maí árið 2008. mbl.is/Reynir Sveinsson

Fjórir menn á aldrinum 19-23 ára hafa verið ákærðir fyrir ýmis brot, sem þeir frömdu aðfaranótt sunnudagsins 8. maí 2016 í Sandgerði og Garði. Einn þeirra er meðal annars ákærður fyrir að hafa valdið eldsvoða í áhaldaskúr bæjarfélagsins, sem hafði í för með sér almannahættu og yfirgripsmikla eyðingu á eignum Sandgerðisbæjar, en skúrinn og allir munir í honum eyðilögðust og er tjónið af þeim völdum áætlað 20 milljónir króna.

Þá eru tveir mannanna ákærðir fyrir þjófnað og eignaspjöll í fiskvinnslunni Nesfiski í Garði, en þeir eru sagðir hafa brotist inn um glugga og skemmt þar innanhússmuni á borð við örbylgjuofna, stimpilklukku, kæliskápa og kaffivél. Tjónið af þessu nam alls yfir 1,5 milljónum króna. Þá eru þeir sagðir hafa stolið bæði exi og mótorhjólahjálmi úr fiskvinnslunni.

Tveir úr hópnum eru svo einnig ákærðir fyrir að hafa brotist inn og stolið slökkvitæki úr áhaldahúsi Sandgerðisbæjar og sömu tveir eru ákærðir fyrir að hafa brotist inn í gróðrastöðina Glitbrá í Sandgerði með því að brjóta gler í hurð. Þaðan stálu þeir kókómjólk og kexi, að óþekktu verðmæti, samkvæmt ákæru málsins, sem var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert