Reyndu að flýja á hlaupum

mbl.is/Arnþór Birkisson

Bíl, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í Breiðholtinu á fimmta tímanum í nótt, reyndist hafa verið ekið af réttindalausum unglingi.

Það var klukkan 4.13 í nótt sem lögregla stöðvaði bílinn, tveir ungir menn sem í honum voru hlupu þá á brott en voru stöðvaðir skömmu síðar. Þeir reyndust þá vera 16 og  17 ára gamlir og án ökuréttinda. Er annar þeirra aukinheldur grunaður um að hafa ekið bílnum undir áhrifum fíkniefna.

Ekki náðist í foreldra drengjanna og var málið því afgreitt með aðkomu barnaverndaryfirvalda.

Þá stöðvaði lögregla bíl í Hlíða- og Háaleitishverfinu um hálfþrjúleytið í nótt, sem tilkynnt hafði verið um þjófnað á. Í bílnum var par og var það handtekið og vistað í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Þá er bílstjóri bílsins einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert