Barði konuna og henti inn í runna

Árásin átti sér stað á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Mynd …
Árásin átti sér stað á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Háaleitisbrautar. Mynd úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

[Við] gátum ekki brugðist við fyrr en hann var búinn að ná að lumbra ansi duglega á henni, henda henni inn í runna og stappa á henni þar.“ Svona lýsir Snorri Barón Jónsson árás sem hann varð vitni að í hádeginu.

Líkt og greint var frá fyrr í dag handtók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu karlmann í annarlegu ástandi á Háaleitisbraut. Maðurinn er grunaður um að hafa sparkað í bifreið sem var kyrrstæð á gatnamótum á Háaleitisbraut og í framhaldinu gengið í skrokk á ökumanninum, ungri konu.

Áður en maðurinn lét til skarar skríða gegn ungu konunni á Háaleitisbraut, er talið að sami maður hafi veist að annarri ungri konu á mótum Vegmúla og Suðurlandsbrautar.

Snorri lýsir því í færslu á Facebook að árásin hafi verið hrottaleg og að hann sé hugsi vegna þess sem hann varð vitni að. Tildrög árásarinnar voru þau, að sögn Snorra, að maðurinn virtist vera ósáttur við að bíll konunnar skagaði lítillega inn á gangbraut á ljósum við gatnamót Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar.

Hann byrjaði á að sparka í bílinn hennar og garga duglega á hana. Hún fór út úr bílnum og til að ræða við hann og þá hjólaði hann bara í hana,“ skrifar Snorri, sem var ásamt félaga sínum í bíl á rauðu ljósi hinum megin við götuna. „Um leið og við náðum að bruna yfir til þeirra og negla bílnum upp á gangstéttina þá tók hann á rás.“

Reyndi að ná árásarmanninum

Snorri reyndi að hlaupa á eftir manninum en án árangurs. Konan sem keyrði bílinn var í miklu áfalli og hlúðu þeir að henni eins og þeir gátu þar til lögreglan kom á staðinn. Svo virðist sem árásin hafi verið með öllu tilefnislaus. Að sögn Snorra hafði konan miklar áhyggjur af bílnum sem hún var á það sem hann er ekki í hennar eigu. „Ef eigandi bílsins er ekki að fara að sýna því skilning að hún varð tilviljanakennt fyrir alvarlegri líkamsárás þá er fokið í flest skjól,“ skrifar Snorri, sem er tilbúinn til að veita konunni alla þá aðstoð sem hana kann að vanta.

„Ef einhver hér þekkir til stelpunnar sem varð fyrir árásinni þá myndi ég gjarnan vilja að hún fengi þau tíðindi að ef hana vantar einhverja aðstoð þá skal ég glaður hjálpa til,“ skrifar hann að lokum.

Rafn Hilmar Guðmundsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, gat ekki veitt frekari upplýsingar um málið þegar eftir því var leitað. Maðurinn er vistaður í fangaklefa á meðan frekari rannsókn fer fram og verður yfirheyrður þegar ástand hans leyfir.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert