Verkakonur í verkfall 8. mars

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir verkfall verkakvenna muni senda …
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir verkfall verkakvenna muni senda skýr skilaboð um mikilvægi þess starfs sem þær sinna. mbl.is/Hari

Samninganefnd Eflingar samþykkti á fundi sínum í kvöld að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu um boðun vinnustöðvunar. Þá samþykkti Verkalýðsfélag Grindavíkur að veita formanni þess umboð til þess að skipuleggja verkfallsaðgerðir.

Verkfall Eflingar er áætlað að fari fram á alþjóðlegum degi kvenna 8. mars og er dagurinn valinn til þess að varpa ljósi á stöðu verkakvenna segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Þetta snýr að þeim sem vinna við að þrífa, sem eru í meirihluta konur. Yfir 90% sem starfa við þetta á hótelunum og gistihúsunum eru konur.“

Formaðurinn segir aðgerðirnar til þess fallnar að sýna fram á mikilvægi þess starfs sem þessir einstaklingar sinna.

„Þegar þetta gerist munum við senda mjög skýr skilaboð um að láglaunakonur sem vinna þessi erfiðu störf fyrir mjög lágar tekjur, vinna þeirra hefur sannarlega búið til þann mikla hagvöxt sem hér hefur átt sér stað og þann gróða sem hefur orðið í þessum bransa,“ útskýrir hún.

Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvun Eflingar fer fram mánudaginn 25. febrúar.

VLFG skipuleggur verkföll

Stjórn- og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Grindavíkur fól formanni þess umboð til þess að skipuleggja verkfallsaðgerðir á fundi félagsins sem hófst klukkan 20 í kvöld. Þetta staðfestir Hörður Guðbrandsson formaður félagsins í samtali við mbl.is.

Í ályktun sem samþykkt var á fundi VLFG kemur fram að mat félagsins sé að „ef til verkfalla kemur er það alfarið á ábyrgð atvinnurekanda. Sú krafa að verkafólk geti lifað mannsæmandi lífi af launum sínum er ekki bara eðlileg krafa heldur líka sanngjörn.“

„Verkafólk í Grindavík samþykkir ekki lengur að lifa í fátækt,“ eru lokaorð ályktunarinnar.

VR ekki í verkfall

Fundur mun fara fram hjá samninganefnd VR á morgun, en formaður félagsins mun ekki bera upp tillögu um að farið verði í atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun, að sögn Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.

Hann segir aðgerðaráætlun VR, Eflingar, VLFA og VLFG vera vel skipulagða og að þær samþykktir um verfallsboðun sem liggi fyrir séu í samræmi við fyrirætlanir félaganna.

mbl.is

Bloggað um fréttina