Verkfallsaðgerðir í eðli sínu alvarlegar

Forsætisráðherra hvetur aðila vinnumarkaðarins til þess að reyna hið ýtrasta …
Forsætisráðherra hvetur aðila vinnumarkaðarins til þess að reyna hið ýtrasta að lenda kjarasamningum. mbl.is/Hari

„Þetta er náttúrulega alvarleg staða og ég hvet aðila til þess að nýta þann tíma sem er fram undan að reyna sitt ýtrasta til að ná samningum, því verkfallsaðgerðir eru í eðli sínu alvarlegar og getur ekki verið óskastaða neins,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um að búið sé að slíta viðræðum VR, Eflingar, VLFA, VLFG og Samtaka atvinnulífsins.

Hún lýsir áhyggjum af stöðunni og vonar að haldið verði áfram að reyna að lenda samningum þrátt fyrir að aðgerðir hafi verið boðaðar.

Ríkisstjórnin hefur ekki fundað vegna stöðunnar á vinnumarkaði, að sögn forsætisráðherra.

„Við kynntum hugmyndir okkar að samfélagslegum umbótum til þess að greiða fyrir samningum, við ræddum við þessa aðila á þriðjudaginn. Við teljum að þær aðgerðir skipti verulegu máli fyrir launafólk í landinu, hvort sem um ræðir uppbyggingu á félagslegu húsnæði, skattkerfisbreytingar sem nýtast þeim tekjulægstu og lengingu fæðingarorlofs,“ segir Katrín.

Þá segir hún ríkisstjórnina hafa gengið að kröfu verkalýðshreyfingarinnar um að upplýsa félögin um þær aðgerðir sem stjórnvöld hyggjast leggjast í. „Þetta eru allt gríðarlega stór lífskjaramál og umfang þessara aðgerða höfum við metið á um 30 milljarða. Þannig að við teljum að við höfum sýnt á spilin.“

Það myndi skipta almenning verulegu máli takist að ná saman um kjarasamninga og að fyrrnefndum verkefnum verði hrint í framkvæmd, að sögn Katrínar.

mbl.is