Seldu starfsmanni fimm bíla

Sigrún segir stefnt að því að hér eftir verði öll …
Sigrún segir stefnt að því að hér eftir verði öll bifreiðakaup boðin út og bílar í eigu fyrirtækisins seldir á almennum markaði. Ljósmynd/Aðsend

Félagsbústaðir seldu starfsmanni fimm notaða bíla síðastliðið haust fyrir samtals 600 þúsund krónur. Auk þess var dóttur annars starfsmanns seldur bíll fyrir 180 þúsund krónur. Var þetta gert eftir að almennar bílaauglýsingar báru ekki árangur.

Þetta kemur fram í svari Sigrúnar Árnadóttur, framkvæmdastjóra Félagsbústaða, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins. Svarið var lagt fram á fundi borgarráðs í gær.

Sigrún segir stefnt að því að hér eftir verði öll bifreiðakaup boðin út og bílar í eigu fyrirtækisins seldir á almennum markaði.

Í svari Sigrúnar kemur fram að í ágúst í fyrra hafi fyrirtækið reynt að selja sex smábíla sem voru 11 til 13 ára gamlir. Fimm bílanna voru af gerðinni Honda Jazz og einn Toyota Yaris en ástand þeirra var ekki talið gott.

Reynt var að auglýsa eftir tilboðum í bílana í Fréttablaðinu og á vef Félagsbústaða, án árangurs. Þá var starfsmönnum Félagsbústaða sendur tölvupóstur og þeim boðið að gera tilboð í bílana. Mánuði síðar voru allir bílarnir seldir.

„Samanlagt fengust því 780 þúsund krónur fyrir bílana með þessu móti sem er svipað eða heldur meira en vænta mátti samkvæmt upplýsingum sem fyrir lágu og að teknu tilliti til sölulauna. Það er hins vegar með öllu óvíst hvort eða hvernig hefði tekist að selja bílana,“ kemur fram í svari Sigrúnar.

Félagsbústaðir eiga nú 13 bifreiðar. Um er að ræða tvo sendibíla í umsjá búslóðageymslu, fjóra nýja Renault Kangoo-smásendibíla og þrjá nýja Renault Zoe-fólksbíla í umsjá framkvæmdadeildar, einn nýjan Renault Zoe í umsjá þjónustudeildar og einn Kia Soul í umsjá fasteignaþróunar. Að auki eiga Félagsbústaðir tvo gamla Honda Jazz og senn verður annar þeirra settur í sölu. 

„Framvegis er stefnt að því að öll bifreiðakaup verði boðin út og bílar seldir á almennum markaði.“

Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins lögðu fram harðorða bókun á fundinum í gær. Þar segir að í ljósi slakrar ímyndar sem fyrirtækið hefur veki svona lagað upp tortryggni.

Margir notendur þessa fyrirtækis eru bláfátækt fólk, rúmlega 900 eru á biðlista. Því þætti það engum undrum sæta þótt upp komi spurningar þegar fréttist að Félagsbústaðir séu að selja starfsmönnum sínum bíla. Nú hefur verið staðfest að Félagsbústaðir eigi þrjá glænýja bíla. Svona upplýsingar eru einfaldlega ekki til að bæta laskaða ímynd Félagsbústaða. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn leggja til að stjórn Félagsbústaða fari að hugsa sinn gang í þessum efnum og gleymi því ekki að sá hópur sem fyrirtækið þjónar sættir sig ekki við hvað sem er,“ kemur fram í bókuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert