Fauk mælirinn í veðurofsanum?

Stórhöfði. Mynd úr safni.
Stórhöfði. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Mikill stormur gengur nú yfir stóran hluta lands og var meðalvindhraði á Suðausturlandinu víða 20-25 m/s í morgunsárið og átti enn eftir að bæta í sums staðar.

Á vefnum Eyjar.net er bent á að meðalvindhraðinn á Stórhöfðastöðinni hafi í gærkvöldi mælst mestur 32 m/s og sterkustu vindhviðurnar 42 m/s. Veðrið átti svo að ná hámarki nú í morgunsárið, en engar mælingar hafi hins vegar borist frá stöðinni á Stórhöfða frá því klukkan þrjú í nótt.

„Spurningin er hvort mælirinn hafi bilað eða hreinlega fokið í veðurofsanum?“ spyrja þeir á Eyjar.net.

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar verður þó að teljast mjög ólíklegt að mælirinn hafi fokið. Vera kunni hins vegar að hann hafi bilað, en eins eigi hann það til að detta út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert