„Miðflokkurinn og Samtryggingin“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.i/Kristinn Magnússon

Frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál var samþykkt á Alþingi á öðrum tímanum í dag. 44 þingmenn greiddu atkvæði með frumvarpinu en níu þingmenn, allir þingmenn Miðflokksins, voru á móti. 

„Það er synd að sjá í hvað stefnir í þessari atkvæðagreiðslu og sannast nú enn á ný og hefur gert alloft áður að undanförnu að það eru í rauninni bara tveir flokkar á Alþingi, Miðflokkurinn og Samtryggingin,“ sagði Sigmundur Davíð við mikla kátínu sumra þingmanna sem skelltu upp úr. 

Frum­varpið snýst í meg­in­at­riðum um hvort af­l­andskrónu­eig­end­um verði heim­ilt að fjár­festa í inni­stæðubréf­um Seðlabank­ans í stað þess að setja féð ein­göngu inn á bund­inn reikn­ing. Önn­ur umræða um frumvarpið hófst um miðjan dag á þriðjudag og stóð í um nítj­án klukku­stund­ir yfir tvo sól­ar­hringa vegna málþófs þing­manna Miðflokks­ins.

Viðskipta- og efnahagsnefnd kom saman í gærkvöldi eftir að annarri umræðu lauk og hófst þriðja umræða í dag. Hún stóð „aðeins“ í þrjár klukku­stund­ir og að því loknu var gengið til atkvæðagreiðslu. 

Óli Björn Kárason, formaður viðskipta- og efnahagsnefndar, sem fjallaði um frumvarpið sagði það mikið gleðiefni að greiða atkvæði með frumvarpinu. „Hér er ekki farið eftir embættismönnum eða þvingunum þeirra heldur einfaldri heilbrigði skynsemi,“ sagði Óli Björn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert