Stefnt að því að ljúka talningu í kvöld

Kosið um verkfallsaðgerðir hjá Eflingu á færanlegum kjörstað.
Kosið um verkfallsaðgerðir hjá Eflingu á færanlegum kjörstað. Haraldur Jónasson/Hari

Atkvæðagreiðslu Eflingar um tillögu að verkfalli húshjálpa á hótelum lýkur klukkan 22 í kvöld. Stefnt er að því að talningu atkvæða ljúki fyrir miðnætti, en verði niðurstaðan sú að verkfallsaðgerðir verði samþykktar verður að boða til þeirra fyrir klukkan 10 í fyrramálið, sléttri viku áður en aðgerðirnar hafa verið boðaðar.

Magnús Norðdahl, formaður kjörstjórnar Eflingar, segir að það seinki nokkuð talningunni að nokkur hluti félagsmanna hefur greitt atkvæði í pappírsformi. „Ef öll atkvæðin væru rafræn, þá værum við enga stund að keyra niðurstöðuna út. En þetta tekur aðeins lengri tíma, öll atkvæðin sem voru greidd í bílum Eflingar voru t.d. pappírsatkvæði,“ segir Magnús.

Kjörgengir eru þeir félagar í Eflingu sem vinna samkvæmt kjarasamningi Samtaka atvinnulífsins og Eflingar og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur vegna vinnu starfsfólks í veitinga- og gistihúsum og hliðstæðri starfsemi, en sá samningur rann út um síðustu áramót. Verði tillagan samþykkt hefst verkfallið klukkan 10:00 að morgni 8. mars og mun standa til miðnættis sama dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert