Áætla ótímabundið verkfall 1. maí

Lögð er til vinnustöðvun hjá Almenningsvögnum Kynnisferða
Lögð er til vinnustöðvun hjá Almenningsvögnum Kynnisferða mbl.is/​Hari

Verkalýðsfélögin fjögur á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni sem eru í samfloti í kjaraviðræðum áætla röð margháttaðra verkfallsaðgerða gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum á næstu vikum og ótímabundnu verkfalli frá 1. maí.

Verkfallsáætlanir VR, Eflingar og Verkalýðsfélags Akraness voru kynntar í gær en stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur ákveður aðgerðir síðar. Aðgerðirnar beinast að hótelum, gistiheimilum og hópferðafyrirtækjum. Dreifast aðgerðir VR og Eflingar á 15 daga í mars og apríl. Efnt verður til atkvæðagreiðslna um þessar aðgerðir eftir helgi.

Beint fjárhagslegt tap ferðaþjónustunnar á hverjum degi verkfalla getur numið hundruðum milljóna, að mati Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Tjónið eykst hratt ef aðgerðir standa marga daga í einu í margar vikur. „Þetta yrðu efnahagslegar hamfarir.“

Á sama tíma og samflotið skipuleggur verkföll eru önnur verkalýðssambönd á stöðugum vinnufundum í Karphúsinu. „Það er ágætis gangur í viðræðunum. Vinnufundum verður haldið áfram í fyrramálið, alla helgina og inn í næstu viku,“ sagði Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari eftir langan vinnufund Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins í gær. Ítarlega er fjallað um vinnudeildurnar í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert