Börn erfi ekki fátækt foreldra sinna

„Það er samfélagsins að passa upp á að börn erfi …
„Það er samfélagsins að passa upp á að börn erfi ekki fátækt foreldra sinna því að við eigum öll rétt á lífinu,“ segir Gunnar Ingi Gunnarsson, sem ólst upp hjá einstæðri móður og öryrkja. Skjáskot/Reykjavíkurborg

Íslenskt samfélag þarf að taka höndum saman og halda betur utan um fjölskyldur sem búa við fátækt og hjálpa þeim að komast upp úr þeim forarpytti sem fátækt er og veita þeim þannig möguleika á betra lífi.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Gunnars Inga Gunnarssonar á opnum fundi velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á föstudag um börn og fátækt. Sjálfur ólst Gunnar Ingi upp hjá einstæðri móður og öryrkja og sagði hann frá áhrifum og afleiðingum þess að alast upp við fátækt.

„Börn sem eru alin upp við fátæktarmörk þurfa oft að eiga við aðstæður sem börn eiga ekki og ættu ekki að þurfa að kljást við sem leiða oft og tíðum til erfiðleika seinna á lífsleiðinni,“ sagði Gunnar Ingi. Hann lýsti því meðal annars hvernig hann fann fyrir vanlíðan móður sinnar og því segir hann það mikilvægt að auka stuðning einstæðra foreldra.

Það er í takt við niðurstöðu nýrrar skýrslu um lífs­kjör og fá­tækt barna 2004-2016, sem kynnt var í vikunni. Þar kemur meðal annars fram að nærri fjög­ur af hverj­um tíu börn­um und­ir lág­tekju­mörk­um eru börn ein­stæðra for­eldra. Skýrsl­an var unn­in af Kol­beini Stef­áns­syni fé­lags­fræðingi að beiðni Vel­ferðar­vakt­ar­inn­ar og fór hann yfir helstu niðurstöður skýrslunnar á fundinum í morgun.

Eitt barn sem lifir við fátækt er einu barni of mikið

„Fátækt er raunveruleg, áþreifanleg og til staðar í íslensku samfélagi og ber öllum skylda að vinna gegn þessari vá sem svo margar fjölskyldur standa við. Ef eitt barn er alið upp hjá fátækum foreldrum er það einu barni of mikið,“ sagði Gunnar Ingi.

Þegar Gunnar Ingi rifjaði upp reynslu sína af því að búa við fátækt fór um hann skjálfti sem var vel greinanlegur og sjálfur gerði hann góðlátlegt grín að því með því að segjast „vera á skjálftavaktinni,“ áður en hann fór aftur á alvarlegri nótur og sagði frá félagslegri útskúfun sem hann varð fyrir á yngri árum vegna stöðu sinnar.  

„Ég þurfti oftar en ekki að ganga meðfram veggjum eða hreinlega flýja inn í kennslustofur til að losna við barninga. Ég man eftir tímabili þar sem ég hljóp heim úr skólanum eins hratt og ég gat til þess eins að verða ekki fyrir aðkasti, háði eða barningum og var oft og tíðum eltur en tókst að sleppa, aðallega vegna þess að ég var logandi hræddur og hljóp eins hratt og ég gat.“

Gunnar Ingi lýsti því hvernig ástandið hafi versnað með árunum og þegar hann var kominn í 9. bekk greip hann til þess ráðs að setja upp ákveðna grímu. „Þetta var sjöundi skólinn sem ég fór í og spilaði mig sem hógværan nagla og lét ekki vaða yfir mig en passaði þó að gera engum neitt. Innst inni var ég logandi hræddur að lenda í einelti eina ferðina enn.“ 

Hér má sjá upptöku frá fundi velferðarsviðs í gær, en erindi Gunnars Inga hefst á 51. múnútu. 

Áttaði sig á áfallinnu seinna á lífsleiðinni

Áföll, stór sem smá, eru að mati Gunnars Inga hluti af því að alast upp við fátækt. „Áföll er eitthvað sem margir átta sig ekki á að börn sem eru alin upp hjá fátækum foreldrum verða mjög oft fyrir, meðal annars vegna streituvalda foreldra, og þessi áföll geta haft varanleg áhrif. Sum börn horfa á foreldra sína falla hægt og rólega niður í vonleysi og þunglyndi með tilheyrandi skapköstum, gráti og tilfinningalegum rússíbana.“

Gunnar Ingi tók dæmi um áfall sem hann varð fyrir níu ára gamall og hefur þurft að glíma við afleiðingar þess upp frá því. „Þegar ég var 9 ára gamall fór ég með móður minni þrisvar sinnum í Kvennaathvarfið á þremur mánuðum vegna aðstæðna heima fyrir. Að fara frá heimilinu olli gríðarlegum kvíða hjá mér og man ég vel þegar ég fór í þriðja skiptið að ég vildi ekki fara því ég var hræddur um að verða húsnæðislaus, grét viðstöðulaust og réð ekki við mig,“ lýsti hann.

Dagarnir eftir síðustu heimsóknina í Kvennaathvarfið eru í móðu en Gunnar Ingi segist hafa áttað sig á því seinna meir að á þessari stundu hafi hann orðið fyrir miklu áfalli. „Þessi lífsreynsla ásamt mörgum öðrum hefur leitt til þess að ég hef lokað að mér, hleypi fólki ekki mjög auðveldlega að mér, hvorki í tali, kynnum, né að sálinni, sérstaklega sál eða hjarta. Ég á mjög erfitt með að treysta yfirhöfuð og hef í raun lagt mikið upp úr því að treysta á sjálfan mig, sem er í raun ekki svo slæmt en það er slæmt að vera alltaf í vörn.“   

Gunnar Ingi hefur notið stuðnings regnhlífasamtakanna Pepp Ísland, sem berjast gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi. Samtökin eiga aðild að European Anti Poverty Network (EAPN) sem vinnur út frá þeirri hugmyndafræði að fólk sem lifir í fátækt taki virkan þátt í samfélagsumræðu. 

Fjárfesting til framtíðar

Gunnar Ingi vill deila reynslu sinni til að vekja athygli á áhrifum og afleiðingum sem fylgir því að búa við fátækt. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarsviði borgarinnar fengu 467 barnafjölskyldur fjárhagsaðstoð frá borginni í fyrra og tilheyra 795 börn þessum fjölskyldum. Á sama tíma bjuggu á annað þúsund barna í félagslegu leiguhúsnæði á vegum borgarinnar en 259 barnafjölskyldur eru á bið eftir leiguhúsnæði.

„En það er ekki bara ríki og sveitarfélög sem þurfa að viðurkenna vandann heldur samfélagið í heild,“ segir Gunnar Ingi. „Það er ekki nóg að koma með fallegar skammtímalausnir eins og gert hefur verið hingað til. Það þarf að hugsa allt upp á ný og fjárfesta til framtíðar, fjárfesta í börnunum,“ bætir hann við og ítrekar að til að vinna gegn því að börn alist upp í fátækt þurfi að byrja á því að aðstoða foreldrana.

„Til að aðstoða foreldra þarf úrræði. Og til að úrræði virki til langs tíma þarf það að vera markvisst og skila einhverju af sér sem mun skila af sér meira öryggi og vellíðan foreldra sem mun hjálpa barninu að líða betur og vera öruggara og lifa eðlilegra lífi.“

Gunnar Ingi segir að til að útrýma fátækt sé mikilvægt …
Gunnar Ingi segir að til að útrýma fátækt sé mikilvægt að fjárfesta til framtíðar og fjárfesta í börnunum. Það má til gamans geta að þessi unga stúlka á myndinni er einmitt dóttir Gunnars Inga, myndin var tekin á fæðingardeild Landspítalans árið 2007. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Allir hafa rétt til að lifa lífinu, óháð fjárhagsstöðu

Gunnar Ingi vill trúa því að hægt sé að gera betur við fjölskyldur sem búa við fátækt. „Sjálfur er ég svo einfaldur og auðtrúa að ég vil trúa því að með samstilltum aðgerðum og réttu hugarfari samfélagsins sé hægt að draga verulega úr stærð þessa hóps með komandi kynslóðum. Það er samfélagsins að passa að börn erfi ekki fátækt foreldra sinna, því öll höfum við rétt á að lifa lífinu.“  

Menntun er að mati Gunnars Inga ein leið barna út úr fátækt og því vill hann að skólaganga verði borguð fyrir börn undir ákveðnum fátæktarmörkum. „Því þau eiga skilið að fara upp úr þessu. Börn kjósa ekki að lifa í fátækt, þau eru sett í fátækt. Það verður að hjálpa þeim upp úr þessum forarpytti og það er okkar, samfélagsins, að gera það.“

Gunnar Ingi lauk erindi sínu með því að flytja ljóð, eins konar hugvekju um fátækt og mikilvægi þess að útrýma henni, ekki síst barnanna okkar vegna. Ljóðið er birt hér að neðan með góðfúslegu leyfi Gunnars Inga: 

Undir stjörnuskini við lækinn þar sem þögnin lifir
er ásjón við lífið nærtæk og yfirvegun tekur yfir.

Heimurinn verður skýrari og lífið sést betur,
hugurinn opnast og sér við hvað hann setur.
Sitt líf, sína ævi, langanir og þrá,
hvort það er við hæfi að vilja það sjá.

Því margt hefur gerst um ævinnar skeið,
sem skorið hefur sálina og brotið um leið.

Hjartað, viljann, líkama og sál,
svo talað sé líka um þjóðernismál.
Allt við misstum í hákarlanna gin
því stjórnin leit á þá sem sinn besta vin.

En staðreyndin er sú að fátækt sjáanleg er
í landinu góða sem allir hafa í hjarta sér.

Hvað tekur við og hvert stefnir nú,
mun landinn flýja eða verður hann trúr
þjóð sinni og landi, munu hendur ná saman,
mun þjóðarinnar andi gefa börnunum framann?

Því framtíðin er þeirra og okkur er skylda
að reisa þjóðina við, þeim til vildar.

Eitt veit ég um mig að ég ætla að taka stöðu
með dóttur minni og verja hennar framtíð með glöðu,
því hún skal frá það sem ég ekki sá,
bjarta framtíð, því hún það skilið á.

Þó að sálin hafi verið brotin og hugur veikur
verður það að ná árangri minn lífsins leikur.

Ég ætla ekki að bugast, skal sigra vandann,
því lífinu oft hugnast að berja niður andann.
Börnin eru framtíðin, þau um okkur munu sjá,
því ættum við að vanda framtíðina sem þau munu fá.

mbl.is