Bæta þarf lífskjör einstæðra foreldra

„Þó að heildarmyndin sé ágæt eru engu að síður óleyst …
„Þó að heildarmyndin sé ágæt eru engu að síður óleyst vandamál,“ segir í skýrslu um lífskjör og fátækt barna á Íslandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bæta þarf lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra sem og barna öryrkja. Nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Þetta er meðal þess sem kemur fram í rannsóknarskýrslu um lífskjör og fátækt barna 2004-2016, sem kynnt var í dag.

Skýrslan var unnin af Kolbeini Stefánssyni félagsfræðingi að beiðni Velferðarvaktarinnar. Í rannsókninni er þróun lífskjara og lífsgæða barna rakin yfir tímabilið 2004-2016 með megináherslu á þrjú tímabil, þ.e. uppgangstímabilið 2005-2007, árin um og eftir hrun, frá 2008 til 2011 og endurreisnartímann 2012-2016.

Siv Friðleifsdóttir, formaður Velferðarvaktarinnar, segir skýrsluna gott innlegg í samfélagsumræðuna um stöðu barna. „Enn á ný er sýnt fram á að einstæðir foreldrar og börn þeirra eru viðkvæmasti hópurinn. Einnig fjölskyldur öryrkja. Bæta þarf stöðuna á húsnæðismarkaði til að létta á þessum hópum ásamt fleiri aðgerðum,“ er haft eftir Siv í tilkynningu.

Lífskjör barna á Íslandi góð heildina á litið

Niðurstöður skýrslunnar gefa til kynna að á heildina litið eru lífskjör barna á Íslandi góð í samanburði við flest önnur Evrópulönd. Árið 2016 voru lífskjör barna mæld í jafngildum ráðstöfunartekjum þau sjöundu bestu í Evrópu, lágtekjuhlutfallið það þriðja lægsta og hlutfall barna sem bjuggu á heimilum í fjárhagsþrengingum var það sjöunda lægsta. Þá voru börn undir lágtekjumörkum á Íslandi ekki mjög langt undir mörkunum samanborið við flest önnur Evrópulönd. Það bendir til þess að vandinn sé ekki óyfirstíganlegur ef grípa á til aðgerða til að draga úr fátækt á meðal barna.

Þó heildarmyndin sé ágæt eru engu að síður óleyst vandamál. Það brýnasta er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra og einnig þarf að huga að börnum öryrkja. Þá hefur staðan á húsnæðismarkaði veruleg áhrif á lífskjör barna, sérlega barna einstæðra foreldra og öryrkja.

Viðbrögð stjórnvalda við kreppunni náðu ekki að hlífa börnum 

Í skýrslunni kemur einnig fram að lífskjör barna versnuðu hlutfallslega meira en lífskjör eftirlaunaþega og öryrkja í kjölfar hrunsins og þrátt fyrir að lífskjör barna hafi batnað mikið eftir 2011 áttu börn lengra í land árið 2016 með að ná aftur lífskjörum ársins 2008 en aðrir hópar.

Börn sem búa á heimilum sem eru í viðkvæmri stöðu, svo sem börn einstæðra foreldra, öryrkja og atvinnulausra, voru mun líklegri til að búa við fjárhagsþrengingar en börn á heimilum sem ekkert ofangreint á við um. Hlutfall barna sem bjuggu við fjárhagsþrengingar jókst líka mun meira hjá börnum sem bjuggu á heimilum í viðkvæmri stöðu en þeim sem gerðu það ekki. Þar stóðu börn á heimilum sem urðu fyrir atvinnuleysi út úr. Það bendir til þess, að mati skýrsluhöfundar, að viðbrögð stjórnvalda við kreppunni hafi ekki náð að hlífa börnum við afleiðingum kreppunnar sem skyldi. Börn komu verr út en almenningur, börn í viðkvæmri stöðu verr en þau sem voru það ekki.

Í lok skýrslunnar setur höfundur fram fjórar tillögur til að auka lífskjör barna og felast þær í að:

  1. Brúa umönnunarbilið
  2. Auka tilfærslur til einstæðra foreldra
  3. Veita börnum ókeypis skólamáltíðir sem búa við fjárhagsþrengingar
  4. Auka niðurgreiðslu tómstundastarfs barna sem búa við fjárhagsþrengingar.

Tillögur í skýrslunni beinast að því að bæta lífskjör barna á Íslandi og mest þessara viðkvæmustu hópa og segir Siv að Velferðarvaktin muni skoða þær og skýrsluna í heild á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert