Nokkur mislingatilfelli gætu bæst við

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Sóttvarnalæknir segir að nokkur tilfelli til viðbótar varðandi mislingasmit hér á landi gætu komið á næstunni en óttast ekki að faraldur muni breiðast út. Hann segir að huga þurfi að mörgu vegna stöðunnar sem er uppi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mislingar geti verið alvarlegir þó svo að í flestum tilfellum séu þeir það ekki.

Vegna þess að hver og einn einstaklingur sem hefur smitast komist í snertingu við gríðarlega marga útheimti það mjög mikla vinnu að hafa uppi á þeim öllum. Þess vegna hafi verið ákveðið að grípa til raunhæfra aðgerða strax í byrjun.

Þær feli í sér að nota sóttkví á þá sem hugsanlega geta verið sýktir á meðan hættan er á að þeir geti smitað aðra. Allt að þrjár vikur þurfa að líða eftir að menn komast í snertingu við smit.

Að sögn Þórólfs er sá tími sem fólk getur veikst allt frá sex dögum upp í 21 dag frá því það smitaðist ef það hefur ekki verið bólusett. 

Bólusetja þarf fjölskyldur

Hann segir að auka þurfi útbreiðslu bólusetninga. Bólusetja þurfi fjölskyldur þeirra sem komist hafa í snertingu við mislingasmit.

Þórólfur segir einnig mikilvægt að ef einstaklingar telja sig hafa smitast af mislingum skuli þeir fara rétta leið til að láta vita. Þeir mega ekki fara innan um aðra á heilsugæslustöð heldur eiga þeir að hringja í upplýsingasímann 1700.

Hefurðu miklar áhyggjur af stöðu mála?

„Ekkert sérstaklega. Við gætum fengið nokkur tilfelli í viðbót en ég held að þetta yrði aldrei neinn útbreiddur faraldur. Það kæmi mér mjög á óvart,“ segir Þórarinn og bendir á að mjög góð þátttaka hafi verið í bólusetningu hér landi. Hlutfallið sé 90 til 95%.

Þeir sem séu óbólusettir leynist þó víða og gætu þeir „dúkkað upp hér og þar“.

Enginn smitaður á Landspítalanum

Enginn þeirra fjögurra sem vitað er að hafa smitast af mislingum undanfarið liggur á Landspítalanum. Sá fyrsti sem veiktist var lagður inn á spítalann en hefur verið útskrifaður þaðan. Barnið sem var lagt inn á Landspítalann 1. mars er einnig farið heim, rétt eins og barnið sem greindist í nótt. Fjórði einstaklingurinn er svo staddur fyrir austan.

Að sögn Þórólfs fer mikil vinna í að samræma aðgerðir og býst hann við því að nóg verði að gera á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert