Buðu gestum mat fyrir að fara snemma

Hótelþernur eru nú þegar byrjaðar að streyma í Gamla bíó. …
Hótelþernur eru nú þegar byrjaðar að streyma í Gamla bíó. Hótelstjóri á Hótel Sögu segir að hluti starfsmanna hafi ætlað að mæta á baráttufund dagsins. mbl.is/Eggert

Ferðamönnum sem yfirgáfu Hilton Reykjavík Nordica-hótelið við Suðurlandsbraut í morgun var í gær boðið að þiggja þriggja rétta máltíð á veitingastað hótelsins gegn því að vakna eldsnemma og yfirgefa herbergi sín kl. 6 í morgun, svo ekki yrði töf á afhendingu herbergjanna til þeirra ferðamanna sem koma í dag. 

Samkvæmt heimildum mbl.is þáðu örfáir ferðamenn þetta gylliboð, en flestir af þeim um það bil 100 gestum sem voru að skrá sig út í morgun gerðu það ekki. Hið sama var gert á fleiri hótelum, meðal annars á City Park hótel, samkvæmt því sem Árni Valur Sólonsson eigandi þess hótels segir við blaðamann.

Hann telur líklegt að fleiri hótelstjórnendur hafi boðið fólki eitthvað í skiptum fyrir að yfirgefa herbergi sín snemma í morgun. 

„Ég var örugglega ekki að finna upp hjólið,“ segir Árni Valur, en á hótelum hans, City Park og City Center, gengu herbergjaþrifin mjög vel í morgun.

„Þau lögðu bara öll extra-hart að sér og eiga þakkir skilið fyrir það. Svo marseruðu þau saman kl. fjórar mínútur í tíu og stimpluðu sig út,“ segir Árni Valur.

Ingólfur Haraldsson hótelstjóri á Hilton Nordica sagðist vera önnum kafinn er blaðamaður hringdi í hann á tíunda tímanum í morgun og mátti ekki vera að því að tjá sig um málið. Var hann sennilega á fullu að þrífa herbergi hótelsins, eins og flestir aðrir æðstu yfirmenn á hótelum á félagssvæði Eflingar – stéttarfélags, en eins og kunnugt er lögðu hótelþernur niður störf kl. 10 í morgun.

Hilton Reykjavik Nordica-hótelið bauð gestum þriggja rétta máltíð fyrir að …
Hilton Reykjavik Nordica-hótelið bauð gestum þriggja rétta máltíð fyrir að fara snemma svo lágmarka mætti rask af verkfallsaðgerðum. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Einhver hótel gripu til þess ráðs að loka fyrir bókanir í dag, þegar ljóst var að til verkfalls kæmi. Innritanir á hótelum Íslandshótela voru til dæmis færri en venjulega, þar sem hótelkeðjan, sem rekur 6 hótel í Reykjavík með ríflega 1.000 herbergjum, tók ákvörðun um að bregðast við verkfallinu með því að loka fyrir bókanir.

Þernur mættu fyrr á Sögu og léttu undir

Það var þó ekki mögulegt alls staðar, eins og til dæmis á Radisson Hótel Sögu, þar sem allt var orðið fullbókað fyrir þó nokkru síðan. Þar gekk þó allt vel að sögn Ingibjargar Ólafsdóttur hótelstjóra og þernur mættu snemma til vinnu og kláruðu þau herbergi sem þegar voru orðin tóm, enda margir ferðalangar sem fara snemma út á flugvöll.

„Við erum með svo einstakt samstarfsfólk að þau mættu svolítið snemma í morgun og léttu mjög mikið á okkur fáu sem megum vinna,“ segir Ingibjörg. Hún segir að hluti starfsmannanna sem lögðu niður störf hafi ætlað sér að fara á fund Eflingar í Gamla bíói, sem hófst kl. 10.

Ferðamenn eru skilningsríkir, en þjónusta við þá sem dvelja á …
Ferðamenn eru skilningsríkir, en þjónusta við þá sem dvelja á Hótel Sögu er skert vegna aðgerðanna að sögn hótelstjóra. mbl.is/Hari

Túristar hafa sýnt verkfallsaðgerðunum skilning að sögn Ingibjargar, en þjónustan er skert.

„Þetta er skert þjónusta við gestina okkar, við erum með lágmarkstiltekt hjá þeim sem eru ekki að koma eða fara og hingað til hefur fólk sýnt þessu bara alveg ótrúlega mikinn skilnining. En auðvitað kemur þetta við fólk, þetta er skert þjónusta. Svo má náttúrulega líka segja að við sem að þrífum hótelherbergin í dag, við gerum það ekki jafn hratt og faglega og samstarfsfólk okkar,“ segir Ingibjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert