„Ekki að tala um margra mánaða skipun“

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir segir að skipan sín í embætti …
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir segir að skipan sín í embætti dómsmálaráðherra sé til skamms tíma. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var bara ákveðið áðan og rætt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins,“ segir nýr ráðherra dómsmála, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Í snörpu samtali við mbl.is eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag lagði hún áherslu á að þessi þróun mála, að hún bæti dómsmálunum ofan á málefni ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sé „auðvitað tímabundin ráðstofun.“

„Við erum að tala um til skamms tíma. Við erum ekki að tala um margra mánaða skipun,“ segir Þórdís Kolbrún, spurð út í það hvað það þýði nákvæmlega að um „tímabundna ráðstöfun“ sé að ræða. Hún segir ennfremur enga ákvörðun hafa verið tekna um það hvort Sigríður Á. Andersen muni snúa til baka í ráðuneytið.

Þórdís segir að hlutirnir hafi gerst hratt, frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll á þriðjudagsmorgun. „Nú er ég búin að vera dómsmálaráðherra í um það bil sex mínútur og mun á morgun fara niður í ráðuneyti og hitta þar það góða starfsfólk sem þar vinnur og hefur verið í þessum málum frá því að þessi niðurstaða kom,“ segir Þórdís Kolbrún.

Mikilvægt að reyna á dóminn

Hún segist vera á þeirri skoðun að „mikilvægt“ sé að láta reyna á það hvort yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu vilji taka dóminn upp, en varðandi stöðuna í íslensku réttarkerfi þar til að sú niðurstaða liggur fyrir.

Spurð út í stöðu Landsréttar, sem dæmir ekki í neinum málum núna á meðan að dómarar eru að átta sig á þýðingu dóms MDE fyrir starfsemi réttarins, segist hún ekki geta sagt til um næstu skref, fyrr en hún hafi fengið tækifæri til þess að setja sig almennilega inn í málin.

„Það bjóst enginn við þessari niðurstöðu, en að öðru leyti á ég eftir að setjast niður með starfsfólki ráðuneytisins og setjast yfir upplýsingar og þessi mál í stóra samhenginu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina