Hrókurinn fagnar með Grænlendingum

Hrókurinn og Kalak hafa í sameiningu staðið að ferðum til …
Hrókurinn og Kalak hafa í sameiningu staðið að ferðum til Grænlands. Ljósmynd/Hrókurinn

Hrókurinn og Kalak bjóða til fagnaðarfunda með vinum frá Grænlandi á morgun kl. 14, í Pakkhúsi Hróksins, Geirsgötu 11 við Reykjavíkurhöfn. Boðið verður upp á tónlist, veitingar og fræðslu um Grænland. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Steffen Lynge er skákmeistari, tónlistarmaður og lögreglumaður, sem starfað hefur víða á Grænlandi. Hann tók þátt í fyrsta alþjóðlega móti Hróksins í Qaqortoq 2003, og hefur síðan verið burðarás í starfi Hróksins þar í landi. Steffen sigraði á meistaramóti Nuuk í fyrra, og hlaut Íslandsferð í verðlaun frá Air Iceland Connect. Hann er líka kunnur tónlistarmaður og lagahöfundur.

Dines Mikaelsen frá Tasiilaq er hér á ferð ásamt Færeyingnum Birgi Hansen, og tveimur unglingspiltum frá Tasiilaq, Samuel Mikaelsen og Mikael Bajare. Dines er allt í senn veiðimaður, listamaður og rithöfundur og hefur lagt sérstaka rækt við að varðveita menningu Austur-Grænlendinga.

Sjana Rut Jóhannsdóttir, sönggyðja Hróksins, mun að auki gleðja gesti með lögum sínum og söng.

Við sama tækifæri verður haldin sýning á teikningum barnanna í Kulusuk, en þar voru Hróksliðar á ferð fyrstu vikuna í mars,“ segir í tilkynningu frá Hróknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert